/
 

Blakdeild Aftureldingar býður börn og fullorðna velkomin!

Blakdeildin heldur úti æfingum fyrir iðkendur á öllum aldri:  Krakkablak fyrir börn, meistaraflokkar fyrir keppnisfólk  og trimmhópar fyrir þá sem eru styttra á veg komnir í íþróttinni, bæði í karla- og kvennaflokkum. Afturelding býður eina bestu aðstöðu landsins til blakiðkunar og er hægt að setja upp 9  blakvelli í fullri stærð eða 19 krakkablaksvelli undir sama þaki.  Einnig má nefna að Blakdeild Aftureldingar er eina deildin í landinu sem á blakvél til að aðstoða við æfingar. Blakdeildin býður einnig upp á strandblak og er strandblaksvöllurinn á útisvæðinu vel nýttur. Blakdeildin hefur þá eindregnu stefnu að ráða ávalt vel menntaða, reynslumikla og metnaðarfulla þálfara í öllum flokum.

 

A-landslið kvenna í blaki er Evrópumeistari 2017 - 4 liðsmenn Aftureldingar í hópnum.

 

Kvennalið Íslands vann til gullverðlauna á Evrópumeistaramóti Smáþjóða (SCD) sem fram fór í Lúxemborg um helgina. Liðið lék þar í úrslitariðli gegn Færeyjum, Skotlandi, Lúxemborg og Kýpur. 


Ísland tapaði fyrsta leik sínum, gegn Skotum en vann síðan leikina við Færeyjar og Lúxemborg. Í síðasta leik mótsins lék Ísland gegn Kýpur þar sem þær íslensku fóru með sigur að hólmi. Fyrir leikinn var vitað að með því að sigra Kýpur 3-0 eða 3-1 yrði Ísland Evrópumeistari. Sú varð raunin og sigraði Ísland leikinn 3-1. Thelma Dögg Grétarsdóttir, leikmaður Aftureldingar skoraði stigið sem tryggði Íslandi Evrópumeistaratitilinn. 
Fjórir liðsmenn Aftureldingar tóku þátt í ævintýrinu, það eru leikmennirnir Karen Björg Gunnarsdóttir, Fjóla Rut Svavarsdóttir og Thelma Dögg Grétarsdóttir. Auk þeirra er Mundína Kristinsdóttir sjúkraþjálfari liðsins, en hún er einnig sjúkraþjálfari Aftureldingar. Að auki er Mundína stjórnarmaður í úrvalsdeildarráði kvenna í blaki hjá okkur í Aftureldingu. 
Við óskum stelpunum hjartanlega til hamingju með frábæran árangur.
 
Frábært starf hefur verið unnið á síðustu árum hjá Blakdeild Aftureldingar sem er nú að skila sér. Sífellt fleirri iðkendur frá Aftureldingu taka þátt í verkefnum á vegum Blaksambands Íslands. Á sama tíma og stelpurnar tryggðu sér Evrópumeistaratitilinn að þá eru átta stelpur frá Aftureldingu í æfingabúðum á Ítalíu með landsliðsþjálfaranum.