/
 

Velkomin á upplýsingavef Ungmennafélagsins Aftureldingar

Innan vébanda Aftureldingar starfa tíu deildir sem bjóða upp á metnaðarfullt starf, hver á sínu sviði, þar sem unnið er að markmiðum félagsins sem felast annars vegar í uppeldis- og lýðheilsustefnu þess og hins vegar í afreks- og keppnisstefnu félagsins. Afturelding gegnir mikilvægri samfélagsþjónustu í Mosfellsbæ og  hefur heilsu allra aldurshópa í Mosfellsbæ að leiðarljósi með því að hvetja til og standa fyrir heilbrigðri afþreyingu í formi íþrótta og hreyfingar ásamt því að glæða daglegt líf íbúa í sveitarfélaginu uppbyggilegu og heilbrigðu félagsstarfi.

 

Æfingabúðir á Akranesi í september

Æfingabúðirnar „Ærslagangur á Skipaskaga“ verða haldnar á Akranesi dagana 15. - 17. september n.k. Það er Karatefélag Akraness (KAK) sem skipuleggur æfingabúðirnar og eru þær ætlaðar iðkendum á aldrinum 12 - 18 ára. Á laugardeginum fer fram haustmót KAÍ á Akranesi sem skipulagt er í tengslum við æfingabúðirnar.

 

Þátttökukostnaður er 7500 kr en innifalið er æfingar, sund, gisting og matur allan tímann. Hægt er að taka þátt í æfingabúðunum án þess að keppa á haustmótinu. Gist verður í Grundaskóla og þurfa því allir að koma með dýnur og sæng/svefnpoka. Hvert félag verður að senda amk einn fararstjóra sem gistir með sínum hópi.

 

Við biðjum foreldra karatekrakka í Aftureldingu að senda okkur tölvupóst eigi síðar en 9. september á netfangið annamth(at)landspitali.is og staðfesta þátttöku sinna barna. Við bendum ykkur einnig á að kynna ykkur frekari upplýsingar um æfingabúðirnar og dagskrá þeirra á Fb síðu deildarinnar. Dagskráin verður ennfremur send út í tölvupósti.

 

Það er góð byrjun á vetrinum að heimsækja annað félag, æfa í stórum hóp og kynnast iðkendum úr öðrum stílum og félögum. KAK hefur staðið fyrir æfingabúðum sem þessum í nokkur ár og hefur skipulagið fram til þessa verið framúrskarandi.