/
 

Velkomin á upplýsingavef Ungmennafélagsins Aftureldingar

Innan vébanda Aftureldingar starfa tíu deildir sem bjóða upp á metnaðarfullt starf, hver á sínu sviði, þar sem unnið er að markmiðum félagsins sem felast annars vegar í uppeldis- og lýðheilsustefnu þess og hins vegar í afreks- og keppnisstefnu félagsins. Afturelding gegnir mikilvægri samfélagsþjónustu í Mosfellsbæ og  hefur heilsu allra aldurshópa í Mosfellsbæ að leiðarljósi með því að hvetja til og standa fyrir heilbrigðri afþreyingu í formi íþrótta og hreyfingar ásamt því að glæða daglegt líf íbúa í sveitarfélaginu uppbyggilegu og heilbrigðu félagsstarfi.

 

Vel heppnuð Skotlandsferð

Afreksiðkendur karatedeildar lögðu land undir fót nýverið.  Haldið var til Skotlands til að taka þátt í Kobe Osaka æfingabúðum og móti.  Alls fóru tólf iðkendur frá Aftureldingu og Fjölni samanlagt.

 

Fyrri daginn fóru fram æfingabúðir þar sem allur hópurinn tók þátt, þ.m.t. Willem C. Verheul yfirþjálfari félaganna og liðstjórar.  Seinni daginn var haldið mót þar sem keppt var í kata, kumite og gladiator. Óhætt er að segja að íslenski hópurinn sem gekk undir nafninu Team Iceland hafi slegið í gegn. Hópurinn rakaði inn verðlaunum og stigu liðsmenn á verðlaunapall í nánast öllum sínum flokkum. Hópurinn sýndi framúrskarandi liðsheild enda æfa afreksiðkendur þessara tveggja félaga, Aftureldingar og Fjölnis, saman þrisvar í viku. Þetta er í þriðja sinn sem félögin skipuleggja Skotlandsferð í október og því má segja að hún sé að verða fastur liður í æfingaári beggja félaga.