/
 

Velkomin á upplýsingavef Knattspyrnudeildar Aftureldingar

Knattspyrnudeild Aftureldingar býður upp á þróttmikið og metnaðarfullt starf í vinsælustu íþróttagrein heims. Barna- og unglingaráð félagsins rekur 12 yngri flokka, allt frá fjögurra ára leikskólabörnum til nítján ára ungmenna en þá taka meistaraflokksráð karla og kvenna við með sitt kraftmikla starf auk þess sem fjöldi eldri iðkenda stundar íþróttina af kappi í bænum. Þjálfarar félagsins eru í fremstu röð enda hafa fjölmargir iðkenda fengið tækifæri með yngri landsliðum Íslands í knattspyrnu og nokkrir núverandi landsliðsmenn fengu sitt fótboltauppeldi í Mosfellsbænum.

Alltaf í boltanum ? Langar þig að prófa ? Komdu og vertu með og við tökum vel á móti þér !

 

Leikjaplanið tilbúið - smelltu á tenglana hér að neðan

Dagskrá Intersportmótins 2013 að verða klár

Þá er skráningu lokið á Intersportmótið 2013 og drög að leikjaplani að fæðast. Það lítur mjög vel út með þáttöku en um 1.000 börn eru væntanleg á Tungubakka um helgina og má búast við að þar verði líf og fjör eins og ávallt.

 

Samkvæmt drögum að leikjaplani hefst mótið kl 9:00 á laugardagsmorgun með því að 6.flokkur karla mætir til leiks. Morgunlotan stendur yfir frá 9:00 til ca 13:00 og þá keppa hjá strákunum A, C og E lið. Síðdegislotan hefst svo kl 13:15 og þá keppa B og D lið hjá strákunum og A. C og D lið hjá stelpunum. Leik lýkur svo um kl 17:20 á laugardag.

 

Á sunnudag er komið að 7.flokki og 8.flokki. Þá hefst mótið kl 9:00 með keppni A, C og E liða hjá strákunum og A, B og C liða hjá stelpunum en eftir hádegi eða kl 13:15 er komið að B og D hjá strákunum. 8.flokkur barna byrjar einnig kl 13:15 og þar er keppt í A, B og C flokki.

 

Rétt er að ítreka að leikjaplan getur breyst lítillega ef breytingar verða á skráningu á síðustu stundu eða ef um forföll er að ræða og áskilur mótanefnd sér rétt til að bregðast við slíku. Ofangreindir tímar munu þó ekki breytast en lið gæti færst á milli styrkleikaflokks til að leikjaplan gangi upp. Bendum við foreldrum sérstaklega á að fylgjast vel með á bloggsíðum eða öðrum samskiptamiðlum sinna liða/flokka síðustu daga fyrir mót.

 

Þá er gott að vera komin vel tímanlega því bílastæðið við Vallarhúsið á Tungubökkum er ekki hannað fyrir þann fjölda sem mætir á Tungubakkana og því getur það tekið nokkrar óvæntar mínútur að koma sér frá bílnum og uppað Vallarhúsinu. Flautað er til leiks á öllum völlum samtímis og ekki beðið eftir að lið komi sér til leiks og því betra að vera vel vakandi og fylgjast vel með þjálfara eða liðsstjóra en þeir munu fá leikjaplanið sent fyrirfram.

Intersportmótið 2013

Afturelding heldur sitt árlega fótboltamót á Tungubökkum í Mosfellsbæ helgina 31.ágúst og 1.september 2013.

 

Mótið verður með hefðbundnu sniði enda tekist sérlega vel til undanfarin ár. Keppt verður í 6. og 7.flokki karla og kvenna og 8.flokki barna og með hraðmóts-fyrirkomulagi eins og tíðkast hefur. Athygli er vakin á því að leikið er í 5 manna liðum í öllum flokkum samkvæmt nýjum KSÍ reglum.

 

Nýr styrktaraðili verður okkur innan handar í ár en það er sportvöruverslunin Intersport sem styrkir mótið að þessu sinni.

 

Innifalið í þáttökugjaldi verða auk verðlaunapenings gjafir frá styrktaraðilum. Skemmtiatriði verða á mótssvæði auk leiktækja og að sjálfsögðu veitingasala með ljúffengan heimabakstur á þessu glæsilegasta Tungubakkamóti allra tíma.

 

Mótið verður aftur haldið í tengslum við bæjarhátíð okkar Mosfellinga "Í túninu heima" og ættu gestir að geta fundið sér ýmislegt til skemmtunar og afþreyingar fyrir og eftir leiki.

 

Skráning fer fram í netfanginu fotbolti(at)afturelding.is