/
 

Velkomin á upplýsingavef Knattspyrnudeildar Aftureldingar

Knattspyrnudeild Aftureldingar býður upp á þróttmikið og metnaðarfullt starf í vinsælustu íþróttagrein heims. Barna- og unglingaráð félagsins rekur 12 yngri flokka, allt frá fjögurra ára leikskólabörnum til nítján ára ungmenna en þá taka meistaraflokksráð karla og kvenna við með sitt kraftmikla starf auk þess sem fjöldi eldri iðkenda stundar íþróttina af kappi í bænum. Þjálfarar félagsins eru í fremstu röð enda hafa fjölmargir iðkenda fengið tækifæri með yngri landsliðum Íslands í knattspyrnu og nokkrir núverandi landsliðsmenn fengu sitt fótboltauppeldi í Mosfellsbænum.

Alltaf í boltanum ? Langar þig að prófa ? Komdu og vertu með og við tökum vel á móti þér !

 

Intersportmótið 2014

Afturelding heldur sitt árlega fótboltamót á Tungubökkum í Mosfellsbæ helgina 30. og 31.ágúst 2014.

 

Mótið verður með hefðbundnu sniði enda tekist sérlega vel til undanfarin ár. Keppt verður í 6. og 7.flokki karla og kvenna og 8.flokki barna og með hraðmóts-fyrirkomulagi eins og tíðkast hefur. Athygli er vakin á því að leikið er í 5 manna liðum í öllum flokkum samkvæmt nýjum KSÍ reglum.

 

Eins og í fyrra er það sportvöruverslunin Intersport sem styrkir mótið og uppbyggingu barna- og unglingastarfs í Mosfellsbæ og kunnum við þeim okkar bestu þakkir fyrir framlagið..

 

Innifalið í þáttökugjaldi sem er 2.000 krónur á mann er verðlaunapeningur og gjafir frá styrktaraðilum. Á mótssvæði verður að sjálfsögðu veitingasala með ljúffengan heimabakstur á þessu glæsilegasta Tungubakkamóti hingað til.

 

Mótið verður aftur haldið í tengslum við bæjarhátíð okkar Mosfellinga "Í túninu heima" og ættu gestir að geta fundið sér ýmislegt til skemmtunar og afþreyingar fyrir og eftir leiki.

 

Skráning fer fram í netfanginu fotbolti(at)afturelding.is