Saga deildarinnar

Stofnun Frjálsíþróttadeildar Aftureldingar

Eins og sést á félagsmerki Ungmennafélags Aftureldingar var félagið stofnað árið 1909. Á fyrstu árum félagsins var félagsleg samvera aðalsmerkið, enda fjarlægðir miklar milli sveitarbæja í þá daga.

Eitt fyrsta íþróttamót Aftureldingar var haldið á Kollafjarðareyrum (undir rótum Esju hjá Mógilsá) 14. júlí 1918 við Ungmennafélagið Dreng í Kjós (sjá ljósmynd hér til hliðar). Keppnisgreinar voru iðulega 100m hlaup, hástökk, langstökk, 50m sund og Íslensk glíma. Reynt var að halda mót þessi árlega langt fram á sjötta áratuginn og eru til skráðar heimildir og nákvæm úrslit þessa móta sem báru nafnið „Leikjamót“. Þessi bók er til vörslu og sýningar á Bókasafni Mosfellsbæjar.

Frjálsíþróttadeild Aftureldingar var formlega stofnuð að Mosfelli árið 1976 og voru Bjarki Bjarnason, Jón Sverrir Jónsson, Haukur Níelsson, Friðjón Þórarinsson og Bjarni Bjarnason í fyrstu stjórninni. Þó að frjálsar íþróttir hafi verið iðkaðar innan félagsins að einhverju marki frá stofnun þess hafði verið mikil lægð í iðkun frjálsra á þessum tíma vegna lélegrar aðstöðu. Bygging íþróttahússins árið 1977 var mikil vítamínsprauta fyrir starf deildarinnar. Um 60 ungmenni voru á æfingum undir stjórn þeirra Bjarka og Jóns og góður andi í hópnum. Meiri áhugi var þó á vetrum en sumrum. Bjarki æfði og þjálfaði fyrstu árin. Átti liðið góðu gengi að fagna á mótum. Stóð deildin fyrir mótahaldi innanhúss auk hins árlega víðavangshlaups sem kallast Álafoss-hlaup. Þetta er minningarhlaup um Álafossverksmiðju og var fyrst haldið árið 1921.

Stakkaskipti urðu svo aftur í starfi deildarinnar árið 1989 er hafist var handa við að byggja fullkominn frjálsíþróttavöll í nánd við íþróttahúsið. Hann var byggður í tilefni þess að landsmót Unfmennafélags Íslands fór fram hér í bæ og mikill stórhugur í bæjarbúum. Þetta var fyrsti frjálsíþróttavöllurinn utan Reykjavíkur sem lagður var varanlegu gerviefni. Stjórn deildarinnar kom þá á fót unglingamóti þar sem unglingar alls staðar af landinu fengu tækifæri til að spreyta sig við bestu aðstæður. Fyrsta mótið fór fram árið 1991 og hefur verið haldið á hverju ári síðan undir heitinu Stórmót Gogga galvaska, síðustu árin með dyggum stuðningi ýmisa fyrirtækja í Mosfellsbæ. Fyrsta árið tóku 32 ungmenni þátt í mótinu en frá aldamótum hafa þátttakendur verið 250-370 og eru það börn og unglingar á aldrinum 6-14 ára víðsvegar af landinu. Þessi hátíð er eitt af aðalmerkjum deildarinar og í frjálsíþróttaheiminum hér á Íslandi og hefur fengið vottun frá ÍSÍ og FRÍ um að vera einn merkasti viðburður innan frjálsíþrótta fyrir þennan aldur.

Nú hafa enn orðið miklar breytingar á innanhússaðstöðu fyrir frjálsar íþróttir með tilkomu nýs íþróttahúss með langstöksgryfju og stangarstökksaðstöðu er byggð var viðbygging við Íþróttamiðstöðina að Varmá 2001.

Stjórn deildarinnar stóð fyrir sumarnámskeiðum fyrir börn í áratug, árin 1983-1992 en síðan þá hefur starfsemi verið haldið út allt árið. Á starfsárum deildarinnar hafa komið fjölmargir framúrskarandi íþróttamenn. Fjöldi Íslandsmeistara, bikarmeistara, Íslandsmethafa, íþróttamenn og konur hafa fengið titla fyrir sitt félag, sveitarfélag og héraðssamand. Aðal-áherslan hefur verið lögð á unglingastarf og hafa okkar krakkar sett fjölmörg Íslandsmet og tekið marga aldursflokkatilta. Með árunum uppsker mikilvægt starf deildarinar og átti hún í upphafi nýrar aldar hátt í tug ungra íþróttamanna sem hafa verið valin í fyrsta-stigs landsliðshóp Frjálsíþróttasambands Íslands. Þetta er árangur sem verður að teljast mjög góður á landsvísu þ.s. íbúðarfjöldi sveitarfélagsins telur rétt yfir 5000 þúsund íbúa á þessum árum.

Þann mikla heiður hlaut deildin í byrjun árs 2004 að verða ”Fyrirmyndardeild” af hendi ÍSÍ, fyrst allra frjálsíþróttadeilda á landinu og fyrst allra deilda innan Aftureldingar.

Margra ára þrotlaust og metnaðarfullt starf stjórnar og þjálfara ber ávöxt og er nú svo komið að eitt fremsta frjálsíþróttafólk Íslands kemur úr röðum Frjálsíþróttadeildar Aftureldingar.

 

Formenn

1976-1979   Bjarki Bjarnason
1979-1981   
Jón Sverrir Jónsson
Jóhann Björnsson

Rúnar Lárusson

1989-1991   Bjarni Halldórsson

1992-1995   Lilja Petra Ásgeirsdóttir

1996-1997   Anna Þóra Stefánsdóttir

1998-2012   Hlynur Chadwick Guðmundsson 
2012-2014   Ólafur Ingi Óskarsson
2014-2015   Steinunn A. Ólafsdóttir
2015-2016   Þórdís Sveinsdóttir
2016-2018   Ingvi Jón Gunnarsson
2019-2020  Unnir Sigurrún Kristleifsdóttir

2020-           Teitur Ingi Valmundsson