Saga deildarinnar

Hvað er Taekwondo

Hvað er Taekwondo
Uppruni Taekwondo
Taekwondo er upprunnið í Kóreu.  Elstu heimildir um stundun bardagalista sem rekja má til Taekwondo eru um 2000 ára gamlar.  Þá voru listirnar kallaðar Súbakdo, Taek Kyon eða einfaldlega Mú Súl sem merkir bardagalistir.  Á þessum 2000 árum hafa orðið miklar breytingar á tækninni, hefðum og notkun hreyfinganna.  Fyrst um sinn voru þær eingöngu til hernaðar, oft gegn innrásarherjum frá Kína og Japan.  Fólkið þróaði tæknina áfram gegnum aldirnar og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hernámsliða og yfirvalda um að banna eða bæla niður ástundun þeirra náðu þær að halda velli.
Algengur miskilningur fólks er sá að gera ráð fyrir að iðkendur hernaðarlista hafi æft þær með þeirri hugsun að þeir ætluðu bókstaflega að nota hendur og fætur til að yfirbuga og drepa óvininn.  Þetta er ekki alls kostar rétt.  Tæknin var mikið frekar notuð til að kenna hermönnum að bera sig rétt að við meðferð vopna.  Þannig sést enn þann dag í dag að skylmingafólk notar t.d. aðallega tvær grunnstöður við sína iðkun, ap kúbí (fram-stöðu) og dúít kúbí (bak-stöðu).  Þegar skylmingakappi verst stendur hann í dúít kúbí en stekkur svo fram í ap kúbí þegar hann reynir að koma höggi á andstæðinginn.  Varnir og högg voru svo aðferðir til að kenna hermönnum að fá hámarkskraft í hreyfingar með vopn.
Með þessu sést að hugsunin á bak við tæknina er oftast nær mun meiri og flóknari en lítur út í fyrstu.  An magí  (vörn fyrir maga) var t.d. aðferð til að æfa sverðshöggshreyfinguna.  Högg var aðferð til að æfa stungu, með sverði, lagspjóti eða öðru.  Og tilgangurinn með vörnum var einnig sá að styrkja hendurnar fyrir það að verjast vopnuðum árásum með skjöld á hendinni.  Auðvitað var tæknin líka notuð með berum höndum eins og nöfn margra bardagalista sanna, t.a.m. Karate (tóm hönd).
Í dag blómstra bardagalistirnar sem aldrei fyrr.  Tilgangur þeirra hefur þó breyst talsvert og er þessi þróun að mínu mati aðalorsök þess að bardagalistir eru enn stundaðar.  Ekkert lifir af án þess að þróast.  Það segir sig sjálft að bardagalistir sem slíkar eru úreltar í dag, á dögum skotvopna og annarra vopna sem ekki er hægt að verjast með berum höndum.  Tilgangur bardagalista í dag er nær því að vera mannrækt frekar en hernaðarlist.  Með ástundun bardagalista eins og Taekwondo öðlast fólk betri heilsu og aukið jafnvægi í lífið.  Hvort tveggja bráðnauðsynlegt í hröðu nútímaþjóðfélagi.