Gott að vita !
Þessi texti er hugsaður sem hvatning til foreldra að taka þátt í því starfi sem snýr að tómstundum barna sinna og styðja þau í því sem þau hafa áhuga á.
Við í stjórn badmintondeildarinnar viljum hvetja foreldra til að kanna áhuga barna sinna á að taka þátt í hinum ýmsu mótum. Okkur langar til að fá fleiri börn og unglinga til að mæta á mótin sem í boði eru til að stækka þann kjarna sem er uppistaðan í keppnisliði Aftureldingar í badmintoni.
Það er skemmtileg reynsla að keppa á móti og spila við aðra krakka en spila alltaf saman á æfingum hér heima í Mosó. Það er ekki síðra fyrir foreldra að koma með og snúast í kring um börnin sín, sinna þörfum þeirra og sjá þau ná árangri. Það er líka árangur þó að leikur tapist, því þá er barnið búið að taka þátt og kynnast öðrum börnum sem það á ugglaust eftir að etja kappi við á næstu árum. Þið foreldrarnir farið líka að þekkja andstæðingana og kynnast foreldrum þeirra!
Það er rétt að taka fram að mót taka sinn tíma og má gera ráð fyrir að dagurinn fari að mestu í mótið. Barnið er ekki að spila allan daginn, heldur fer það yfirleitt eftir gengi hversu marga leiki það spilar. Því er rétt að hafa gott og hollt nesti (brauð, ávexti, grænmeti, ávaxtasafa, vatn). Börnin hafa gjarnan bók eða iPod til að stytta sér stundir og foreldrarnir hafa dagblöð, vikublöð, prjóna eða ljóðabók til að dunda sér við. Þolinmæði í ríkum mæli og að blanda geði við aðra foreldra styttir líka daginn fyrir foreldrana.
* Foreldrar hjálpa til með því að fylgjast vel með hvort verið er að kalla upp barnið, þannig að það þurfi ekki að gefa leik (sem getur gerst ef barnið skilar sér ekki til mótsstjórnar þegar það er kallað upp). Hægt er að sjá útprentaða uppröðun og tímasetningar (oftast hengt upp á vegg í salnum, líka hægt að prenta út af vefnum www.badminton.is ) eða fá þær upplýsingar hjá mótsstjórn, einnig hvort leikir séu á tíma, á undan eða eftir áætlun.
* Gætið að því að sýna kurteisi. Það er gott að hvetja barnið sitt, en jafnframt rétt að gæta þess að særa ekki andstæðinginn. Gott að kalla: “Vel séð!” þegar andstæðingnum verður á að setja boltann út af (Ekki: “Gott á hann!) “Vel gert!” – “Glæsilegt” – “Góð/ur” – o.sv.frv.
* Börnin þurfa að vita að það er möguleiki á því að þau þurfi að telja í næsta leik á eftir.. Þau eiga því ekki að rjúka í burt áður en næsti leikur byrjar. Foreldrar þurfa líka að vita þetta svo þau drífi sig ekki burt úr húsi ef barnið hefur lokið keppni. Misjafnt er eftir mótum hvort sá sem sigrar eða tapar leik telur næsta leik eða hreinlega er hlutkesti upp á það.
* Þegar verið er að keppa er gott að hafa vatnsbrúsa á hliðarlínunni og ef til vill líka lítið handklæði til að þurrka af sér svitann ef mikið er tekið á!
Bestu kveðjur!
Stjórn badmintondeildar Aftureldingar