Um karate

Núverandi karate er bardagaíþrótt/sjálfsvörn upprunnin á japönsku eyjunni Okinawa.

Eyjan var lengi undir miklum áhrifum Kínverja sem stunduðu eigin bardagalistir. Angar af þessum listum bárust til eyjunnar og blönduðust þar við hinar ýmsu bardagalistir sem stundaðar voru þar og þannig urðu til mismunandi staðbundin afbrigði bardagalistar sem kennd voru við borgir eða bæi. Þær mikilvægustu fyrir karate má nefna Shuri, Naha og Tomari. Ef maður bjó í Shuri og stundaði sjálfsvörn var það kallað Shuri – Te o.s.frv.

Höfundur Shito Ryu er Kenwa Mabuni frá bænum Shuri á eyjunni Okinawa í Japan. Mabuni byrjaði ungur að læra Shuri-te undir leiðsögn hins virta Ankoh Yasutsune Itosu. Síðar nam hann Naha-te undir leiðsögn Kanryo Higashionna. Þeir tveir voru helstu áhrifavaldar í þróun á stíl Mabuni. Shito Ryu stíllinn er að mestu samsettur úr Shuri-, Naha- og Tomari-te. Þótt hann hafi sett saman aðferðir og kenningar frá þessum fyrrum kennurum sínum, mun Mabuni einnig hafa leitað áhrifa og þekkingu frá nokkrum öðrum karatemeisturum, þar á meðal Seisho Aragaki, Tawada Shimboku, Sueyoshi Jino og Wu Xianhui. Nánar um Shito Ryu stílinn á vef Wikipedia.

Kennsla í karate fór mjög leynilega fram og var það ekki fyrr en 1908 að karatemeistarinn Anko Itosu skrifaði bréf þar sem hann mælti með að kennsla í karate færi fram í öllum grunnskólum Japans sem kennslan varð opinber. Almenn skólakennsla varð svo að veruleika síðar. Endurskoða þurfti gömlu kennsluaðferðina að kenna einum einstaklingi í einu og koma í staðinn á hópkennslu sem gerði karate aðgengilegra fyrir fleiri og þannig hófst útbreiðsla karate.

Shito Ryu stílinn er iðkaður hjá karatedeild Aftureldingar. Hann er einn af fjórum mismunandi karatestílum sem er viðurkenndur af Alþjóða karatesambandinu (WKF). Hinir þrír eru Shotokan, Goju Ryu og Wado Ryu. Allir þessir stílar eru iðkaðir á Íslandi. Deildin er meðlimur í alþjóðlega karatesambandinu Kobe Osaka International og koma þjálfarar reglulega til að þjálfa og gráða iðkendur deildarinnar.

Karate hentar iðkendum á öllum aldri. Íþróttin er í senn bardagaíþrótt, sjálfsvörn, líkamsrækt og lífsstíll. Karate er samsett orð úr kara og te sem þýðir tóm hönd. Nafnið er samheiti yfir ýmis afbrigði af vopnlausum japönskum sjálfsvarnaríþróttum, byggðar á fornum kínverskum bardagalistum, sem kenndar eru við bæi eða borgir í Japan. Í öllum karatestílum er íþróttinni skipt í þrjá hluta: kihon, kumite og kata.

KIHON
Kihon eru grunnæfingar þar sem hver tækni fyrir sig er kennd og brotin niður. Iðkandinn æfir spörk, högg og varnir þar til hann nær fullkomnu valdi á hreyfingum og stöðum í karate.

KATA
Kata eru grunnæfingar ofnar saman í bardaga við ímyndaðan andstæðing. Framkvæma þarf fyrirfram ákveðnar hreyfingar í ákveðinni réttri röð, á réttum hraða og með réttum áherslum. Kata eru mismunandi og mismargar eftir karatestílum. Á heimslista WKF eru keppniskata mismargar eftir stílum. Þær eru 43 í Shito Ryu, 10 í Goju Ryu, 21 í Shotokan og 10 í Wado Ryu. Að auki eru kenndar byrjendakata í hverjum stíl.

KUMITE
Kumite er frjáls bardagi á milli tveggja einstaklinga og er önnur tveggja keppnisgreina í karate. Stig eru gefin fyrir högg og spörk sem hæfa andstæðinginn á leyfilegum stöðum og geta keppendur hlotið eitt, tvö eða þrjú stig eftir því hversu erfiðri árásartækni þeir beita. Markmiðið í kumite er að hljóta sem flest stig í viðureign.

Kata og kumite eru sjálfstæðar keppnisgreinar.

Kobe Osaka International

Karatedeild Aftureldingar er aðili að Kobe Osaka International.

Tommy Morris stofnaði Kobe Osaka Karate Club árið 1963 í Glasgow Skotlandi. Sensei Morris varð fyrsti svartbeltingur Skotlands árið 1965 eftir að hann tók 1. dan (Shodan) próf hjá Sensei Yoshinao Nanbu í Frakklandi. Árið 1967 fór Sensei Morris til Japan og var þar í ströngum æfingum í Kobe undir stjórn Shukokai meistaranna Chojiro Tani og Shigeru Kimura en hann snéri ekki aftur heim fyrir en hann hafði náð 3. dan (Sandan). Árið 1973 fékk hann 5. dan (Godan) gráðun af fyrirnefndum meisturum. Sensei Tommy Morris fékk 8. dan (Hachidan) frá heimssambandinu WKF árið 2003.

Sambandið Kobe Osaka International var stofnað árið 1991 og var upprunalega Shito Ryu Shukokai samband með aðila frá 9 löndum. Vinsældir sambandsins jukust hratt og eru nú allir stílar velkomnir í það og meðlimir koma nú frá fleiri en 40 aðilarlöndum.

 

Saga deildarinnar

Karatedeildin var stofnuð árið 1997.
Starfsskýrsla 2005
Starfsskýrsla 2004-2005
Starfsskýrsla 2002-2003
Starfsskýrsla 2002