Um Karate

Alþjóðlega karatesambandið viðurkennir fjóra mismunandi karatestíla í keppni; Shito Ryu, Goju Ryu, Shotokan og Wado Ryu. Allir þessir stílar eru iðkaðir á Íslandi og er Shito Ryu stíllinn kenndur hjá Karatedeild Aftureldingar. Deildin er meðlimur í Kobe Osaka International karatesambandinu og reglulega koma karatemenn frá sambandinu og þjálfa/gráða iðkendur deildarinnar.

Hægt er að horfa á karate sem bardagaíþrótt, sjálfsvörn, líkamsrækt og lífsstíl. Þrátt fyrir mismunandi stíla og áherslur er karateiðkun alltaf skipt í þrjá hluta : KIHON, KATA og KUMITE.

KIHON
Kihon eru grunnæfingar þar sem hver tækni fyrir sig er kennd og brotin niður. Iðkandinn æfir spörk, högg og varnir þar til hann nær fullkomnu valdi á hreyfingum og stöðum í karate.

KATA
Kata eru grunnæfingar ofnar saman í bardaga við ímyndaðan andstæðing. Framkvæma þarf fyrirfram ákveðnar hreyfingar í ákveðinni réttri röð, á réttum hraða og með réttum áherslum. Kata eru mismunandi og mismargar eftir karatestílum. Á heimslista WKF eru keppniskata mismargar eftir stílum. Þær eru 43 í Shito Ryu, 10 í Goju Ryu, 21 í Shotokan og 10 í Wado Ryu. Að auki eru kenndar byrjendakata í hverjum stíl. Kata er sjálfstæð keppnisgrein í karate.

KUMITE
Kumite er frjáls bardagi á milli tveggja einstaklinga og er önnur tveggja keppnisgreina í karate. Stig eru gefin fyrir högg og spörk sem hæfa andstæðinginn á leyfilegum stöðum og geta keppendur hlotið eitt, tvö eða þrjú stig eftir því hversu erfiðri árásartækni þeir beita. Markmiðið í kumite er að hljóta sem flest stig í viðureign.

Gráðunarkerfi og belti: Kata – ATH þær gilda ekki einar og sér í gráðun
Hvítt, byrjendabelti, allir flokkar Undirbúningur fyrir Kihon Kata
Rautt belti 13 ára og yngri  Kihon Kata
Gult belti 8. kyu Undirbúningur fyrir Pinan Nidan
Appelsínugult belti 7. kyu Pinan Nidan
Grænt belti 6. kyu  Pinan Shodan
Blátt belti 5. kyu Pinan Sandan
Fjólublátt belti 4. kyu Allar fimm Pinan Kata
Brúnt belti +1 strípa 3. kyu  Allar fimm Pinan Kata án mistaka ásamt Bassai Dai
Brúnt belti +2 strípur 2. kyu Sama og 3. kyu ásamt Annanko
Brúnt belti +3 strípur 1. kyu Seienchin
Svart belti, Shodan Ho (til reynslu), Shodan 1. dan, Nidan 2. dan, Sandan 3. dan, Yondan 4. dan, Godan 5. dan

Beltapróf eru reglulega, 16 ára og yngri fá 1-3 strípur á milli belta en eldri fá heil belti. 7 ára og yngri fá hvítar strípur en 8 ára og eldri svartar. Þegar komið er í brúnt +1 strípu þurfa að líða 6 mánuðir á milli prófa og 1 ár þegar komið er með brúnt +3 strípur og Shodan Ho. Iðkendur þurfa að sýna a.m.k. 60% mætingu á milli beltaprófa, æfingagjöld þurfa að vera greidd og iðkandinn þarf að vera öðrum til fyrirmyndar. Beltagráðun er e.k. próf þar sem iðkandinn þarf að sýna ákveðna þætti, m.a. stöður, spörk, tækni, framkomu og Kata. Allt helst þetta í hendur og saman hefur þetta meira gildi heldur en fjöldi kata sem iðkandinn kann.
Reglur Kobe Osaka sem iðkendur skulu fylgja:

 1. Þegar nemandi kemur í æfingasalinn (Dojo), eða fer út úr honum skal hann hneigja sig.
 2. Nemendur eiga aldrei að vera í skóm, hvorki í tíma né í keppni.
 3. Stranglega er bannað að reykja og blóta í æfingasalnum.
 4. Bannað er að koma með áfengi í tíma, og eins að vera undir áhrifum áfengis.
 5. Nemendur skulu vera hreinir, neglur eiga að vera snyrtilegar og búningurinn á ætið að vera hreinn og straujaður.
 6. Ekki er leyfilegt að bera skartgripi við þjálfun.
 7. Bannað er að tala í tímum, nema nauðsyn beri til.
 8. Nemendur eiga að fylgja leiðbeiningum kennara.
 9. Nemendur eiga að mæta stundvíslega í tíma.
 10. Nemendur mega ekki liggja upp að vegg, eða spranga um gólf æfingasalarins. Nemendur eiga alltaf að sitja uppréttir. Þegar nemendur bíða eftir að röðin komi að þeim, mega þeir ekki trufla aðra nemendur. Þegar hlustað er á leiðbeiningar má ekki hafa hendur krosslagðar eða á mjöðmum. Hendurnar eiga að vera beinar niður og hnefar krepptir.
 11. Þegar öðrum nemenda er heilsað hneigið ykkur þá og segið „oo´s“.
 12. Þegar kennari biður um að nemendur fari í beina línu skulu þeir raða sér upp strax.
  a) Þegar þjálfari kemur inn í salinn eiga nemendur að fara í beina röð með hendur niður með síðum.
  b) Sá sem hefur æðstu gráðuna stendur fremstur í röðinni og segir, þegar allir eru búnir að taka stöðu, „Seiza“. (seiza = setjast)
  c) Þá eiga nemendur að krjúpa á hnén, fyrst á það vinstra með beint bak og svo það hægra, síðan setjast á hælana, með lófana á lærunum.
  d) Þegar þjálfarinn segir skipunina „Mokso“ (mokso = hefja hugleiðslu) á að gera lófana bollalaga, augun eiga að vera lokuð og nemandinn undirbýr sig fyrir þjálfun.
  e) Þegar skipunin „Yamae“ (yamae = hætta) er gefin opna nemendur augun og hendurnar fara aftur á lærin.
  f) Þegar skipunin „Rai“ (rai = hneigja) er gefin eiga nemendur að styðja höndunum við gólfið, lófarnir niður og beygja sig í u.þ.b. tvær sekúndur.
 13. Þegar nemendur koma seint í tíma skulu þeir fara á hnén í enda æfingasalarins og horfa til kennarans áður en þeir taka þátt í tímanum.
 14. Nemendur mega ekki yfirgefa salinn áður en tíminn er búinn nema með leyfi kennarans.
 15. Nemandi sem þarf að yfirgefa salinn áður en tíminn er búinn skal hneigja sig við enda æfingasvæðisins.
 16. Í sýnikennslu, með kennara eða með tilsögn hans, eiga nemendur að hneigja sig og segja „oo’s“. Nemandi á alltaf að hneigja sig fyrst til kennarans og kennarinn svo til nemandans.
 17. Aldrei má kalla kennara eða leiðbeinanda með skírnarrnafni. Kennara á að kalla „SENSEI“ og leiðbeinendur „SEMPAI“.
 18. Þegar kennari kallar upp nemanda til að aðstoða sig, skal nemandi svar með því að segja „oo’s“ og fara strax til kennarans. Þar skal hann hneigja sig fyrir kennaranum og bíða frekari fyrirmæli.
 19. Þegar tveir nemendur eru að æfa sig saman eiga þeir að hneigja sig samtímis á móti hvorum öðrum áður en æfingin hefst og eftir að henni er lokið.
 20. Áður en farið er inn í æfinga- eða keppnissal skal þátttakandi alltaf hneigja sig. Áður en sjálf æfingin hefst skal hneigja sig fyrst fyrir dómaranum og síðan fyrir keppinaut sínum.

Saga deildarinnar

Karatedeildin var stofnuð árið 1997.
Starfsskýrsla 2005
Starfsskýrsla 2004-2005
Starfsskýrsla 2002-2003
Starfsskýrsla 2002