Hlaupahópur

Hlaupahópur Aftureldingar – Mosóskokk

Hlaupahópurinn Mosóskokk hefur verið starfandi um árabil í Mosfellsbæ. Haustið 2022 sameinuðu Mosóskokk og Afturelding krafta sína og úr varð Hlaupahópur Aftureldingar – Mosóskokk. Hópurinn starfar nú undir merkjum Frjálsíþróttadeildar Aftureldingar og er með þrjár æfingar í viku, róleg hlaup með styrk eða gæðaæfingum á mánudögum og miðvikudögum og svo lengra yndishlaup á laugardögum. Alltaf er miðað við að hafa mismunandi útgáfur af æfingum svo allir, jafnt byrjendur sem lengra komnir á hvaða aldri sem er fái eitthvað við sitt hæfi. Á laugardögum er lögð áhersla á að njóta frekar en að þjóta og reynum við að fara fjölbreyttar og skemmtilegar leiðir. Þá njótum við þeirra forréttinda að hafa þessa stórbrotnu náttúru í bakgarðinum hér í Mosfellsbæ þurfum því ekki að fara langt til þess að njóta hennar í góðum félagsskap og náum þannig að bæta heilsuna og njóta hreyfingarinnar.

Frjálsíþróttadeildin og hlaupahópurinn standa fyrir ýmsum viðburðum í Mosfellsbæ, þar má nefna Þrettándahlaup, Kirkjuhlaup (á annan í jólum), Drulluhlaup, mörg samhlaup og síðast en ekki síst Álafosshlaupinu sem ávallt fer fram þann 12. Júní ár hvert.

Álafosshlaupið er sögufrægt hlaup sem fyrst var hlaupið árið 1921 að frumkvæði Sigurjóns Péturssonar á Álafossi og hefur verið haldið með hléum síðan. Framan af var hlaupið á milli Álafoss og Melavallarins í Reykjavík, síðan færðist hlaupið í nágrenni Álafoss. Kveikjan var sigling Einars Péturssonar, bróður Sigurjóns, um Reykjavíkurhöfn á kappróðrarbáti sínum með hvítbláa fánann í skut þann 12. júní 1913. Fáninn var tekinn í vörslu danskra varðskipsmanna. Hermt er að atburðurinn hafi hleypt auknum krafti í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á þeim tíma. UMFÍ tók fánann síðar upp og gerði að sínum.

Allir eru velkomnir í hlaupahóp Aftureldingar – Mosóskokk og hægt er að finna nánari upplýsingar á facebook síðu hópsins eða á heimasíðu Aftureldingar undir Frjálsíþróttadeild https://afturelding.is/frjalsar/  en skráning í hópinn fer einnig fram þar. Við hvetjum alla til að koma og prófa að hlaupa með okkur.