Það verður mikið í húfi á laugardag því stelpurnar okkar eru enn í fallhættu og þurfa nauðsynlega að næla sér í stig í leiknum til að tryggja sæti sitt í Pepsideildinni. Mosfellsbær hefur ekki átt annað keppnislið jafn lengi í efstu deild um árabil og því mikið í húfi fyrir bæjarbúa, jafnt sem knattspyrnudeild.
Valur hefur átt frekar rólegt tímabil á sinn mælikvarða og missti af lestinni í slagnum um Íslandsmeistaratitilinn fyrir nokkru síðan. Liðið komst þó í úrslit bikarkeppninnar og er mjög öflugt að vanda.
Afturelding steig stórt skref í átt að áframhaldandi veru í deildinni með stórsigri á KR í síðustu umferð. Þar með varð það hlutskipti KR að falla en Afturelding og Fylkir berjast nú um að halda sæti sínu. Ef Fylkir vinnur nýkrýnda Íslandsmeistara Þórs/KA á laugardag verða okkar stelpur að ná a.m.k. jafntefli við Val og því má búast við mikilli spennu.
Knattspyrnudeild hvetur nú Mosfellinga til að taka höndum saman með stelpunum okkar og mæta á völlinn á laugardag – Áfram Afturelding !!