Þróttarar of sterkir – strákarnir úr leik

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Leikurinn hófst með nokkrum látum og reyndu bæði lið fyrir sér fyrstu mínúturnar. Undan sterkum vindi sóttu heimamenn þó meira og eftir aðeins sjö mínútna leik slapp einn hraðskreiður Þróttari milli varnarmanna okkar og lagði boltann framhjá Antoni og staðan orðin 1-0. Aðeins sló þetta okkar menn útaf laginu og Þróttur virtist vera að ná undirtökunum þegar Elvar Ingi slapp innfyrir og jafnaði metin á tólftu mínútu og nú voru það þeir röndóttu sem misstu aðeins taktinn.

Eftir þessa fjörlegu byrjun var jafnræði með liðunum og það kom því úr óvæntri átt að Þróttur skoraði umdeilt mark úr síðustu sókn hálfleiksins en leikmenn og þjálfarar Aftureldingar voru mjög ósáttir við að markið fengi að standa. Staðan 2-1 í hálfleik. Mosfellingar komu tvíefldir og ákafir til leiks í seinni hálfleik og áhorfendur voru enn að koma sér fyrir þegar Wentzel Steinarr jafnaði metin með hnitmiðuðu skoti í bláhornið eftir fína sókn. Sóknarleikur Aftureldingar var oft á tíðum til fyrirmyndar í síðari hálfleik og oftar en ekki skapaðist nokkur hætta við mark Þróttar.

En heimamenn búa líklega að heldur meiri reynslu úr efri deildum og náðu að innbyrða sigur með tveimur síðbúnum mörkum og lokastaðan því 4-2. Afturelding átti þó færi til að skapa spennu undir lokin en inn vildi boltinn ekki og strákarnir okkar eru því úr leik í bikarnum þetta árið.

Næstu leikur er heimaleikur í deildinni á laugardaginn kemur gegn Hetti.
Mynd: Raggi Óla