Aftureldingarkrakkar á ferð og flugi með yngri landsliðum Íslands

Körfuknattleiksdeild AftureldingarKörfubolti

Síðastliðna viku hafa leikmenn frá Aftureldingu tekið þátt í landsliðsverkefni á vegum KKÍ í Kisakallio í Finnlandi. Ótrúlega skemmtilegt íþróttasvæði þar sem allt er til alls og kjöraðstæður fyrir íþróttamenn að taka framförum og verða betri í mjög framsæknu umhverfi. Afturelding átti þrjá leikmenn í U15 ára landsliði drengja þá Björgvin Már Jónsson, Dilanas Sketrys og Sigurbjörn Einar Gíslason. U15 eru leikmenn fæddir árið 2009. Einnig er gaman að nefna að Elín Heiða Hermannsdóttir keppti fyrir U15 kvenna lið Íslands á sama móti en hún er Mosfellingur í húð og hár. Hún hóf sín fyrstu skref með okkur í körfunni í Aftureldingu áður en hún hélt yfir lækinn og leikur nú með Fjölni þessi misserin og stendur sig frábærlega.

Krakkarnir héldu út þann 2. ágúst síðastliðin á þetta fjögurra liða mót en einnig voru lið heimamanna í Finnlandi, Þýskaland og loks voru frændir okkar Danir með lið á mótinu. Fyrst var leikið gegn Finnlandi þá Þýskalandi og svo var leikið gegn Dönum. Að lokum var síðan leikið um sæti. Í stuttu máli hafðist einn sigur í riðlinum eftir spennandi leik við Þýskaland en tvo töp gegn Finnum og Dönum staðreynd og því var leikið aftur við Þjóðverja um 3. sætið þar sem þeir náðu fram hefndum og sigruðu að lokum 69-61. Stelpuliðið hafnaði í 3. sæti eftir sigur gegn Dönum.

KKÍ sendir lið til keppni í fjórum aldursflokkum yngri landsliðna U15, U16, U18 og U20. Það er ótrúlega mikill heiður að vera valinn úr risastórum hópum í lokahópa yngri landsliða og þessir einstaklingar okkur voru að klára sína fyrstu fjóra landsleiki vonandi af fjölmörgum fyrir hönd Íslands. Þetta er í fyrsta skiptið sem við eigum uppalda stráka í svona landsliðsverkefnum en til gamans má nefna að Afturelding er eina félagið á Íslandi í karlaboltanum sem átti þrjá einstaklinga úr sama liðinu en 2009 hópurinn okkar varð einmitt Íslandsmeistarar í fyrsta skipti í sögu Aftureldingar núna síðastliðið vor.  Það er frábært fyrir okkar ungu körfuknattleiksdeild og sannarlega hlutur sem við erum virkilega stolt af. Þessir krakkar koma reynslunni ríkari heim eftir verkefnið og geta þá leiðbeint og kennt þeim sem á eftir koma hvað þarf til að komast á þetta stig. Nú er það svo okkar sem að deildinni koma að hjálpa þeim og öðrum að halda áfram að taka framförum og bæta sig í leiknum góða. Það eru ótrúlega mikil tækifæri til staðar fyrir körfuna í Mosfellsbæ og við ætlum að gera okkar besta til að gera ennþá betur á komandi árum.  Við erum algjörlega sannfærð um að þetta eru bara fyrstu af vonandi fjölmörgum einstaklingum sem munu taka þátt fyrir hönd Aftureldingar í landsliðsverkefnum Körfuknattleikssamband Íslands. Með mikilli vinnusemi, dugnaði og háleitum markmiðum er hægt að áorka ofsalega miklu.

Til hamingju strákar og krakkar með þennan árangur ykkar, við hlökkum til að fá ykkur heim og heyra ferðasögurnar.

Fyrir hönd Aftureldingar Körfubolta,
Sævaldur Bjarnason yfirþjálfari KKD Aftureldingar.