Gengi FH hefur verið upp og ofan undanfarin ár en liðið er nú sitt annað ár í Pepsideildinni eftir stutta viðdvöl í 1.deild. Í fyrra lék liðið betur en margir áttu von á og endaði í sjötta sæti. Síðan þá hafa FH-ingar misst bæði sinn efnilegasta sóknarmann, Aldísi Köru sem er farin í Breiðablik og þjálfarann Helenu Ólafsdóttur sem er tekin við Val. Við af henni tók Guðrún Jóna Kristjánsdóttir sem þjálfaði einmitt Aftureldingu hér um árið. FH hefur tapað tveimur leikjum í upphafi móts og gert eitt jafntefli og er í áttunda sæti.
Afturelding fékk gott stig á Selfossi í síðasta leik og fylgdi þannig á eftir heimasigri þar á undan. Stelpurnar okkar eru að finna góðan takt í sínu spili og hafa átt tvo fína leiki í röð. Hópurinn er í nokkuð góðu standi og John ætti að geta stillt upp sínu sterkasta liði. Liðin hafa mæst fjórum sinnum í Pepsideildinni síðan 2010 og komið jafnt út úr þeim, einn sigur á mann og tvö jafntefli, sem einmitt komu bæði í deildinni í fyrra.
Knattspyrnudeild hvetur Mosfellinga til að fjölmenna í Kaplakrika á miðvikudagskvöld og styðja við stelpurnar. Leikurinn hefst kl 19:15