Allt á fullu í starfi yngri flokka í körfunni

Körfuknattleiksdeild AftureldingarKörfubolti

Næstu daga er vetrafrí í grunnskólum Mosfellsbæjar og þá er nú ekki úr vegi að staldra aðeins við og flytja smá fréttir af gangi mála í körfuknattleiksdeildinni í Aftureldingu.

Mjög mikið hefur verið í gangi hjá deildinni það sem af er keppnistímabili en það hefst vanalega strax í byrjun september. Starfið hófst með foreldrafundum í öllum flokkum þar sem farið var yfir áherslur í starfinu, mót og keppnisfyrirkomulag.   Þessir fundir voru flestir mjög vel sóttir og spennandi vetur framundan.

Keppnistímabilið hefur heldur betur byrjað með trukki og deildin líklega komin men vel yfir 50 leikna leiki það sem af er, fullt af sigrum og töpum eins og gengur í þessu en yfir höfuð hefur þetta farið mjög vel af stað hjá deildinni. Flestir flokkar hafa hafið leik en núna er einmitt í gangi skráning í 1.-4.bekk á fyrsta körfuboltamót vetrarins hjá þeim, Fjölnismótið sem haldið er 2.-3.nóvember í Grafarvoginum.

Starf körfuknattleiksdeildarinnar er alltaf að stækka og styrkjast og nálgast nú hratt og örugglega 200 iðkenda markmiðið í barna og unglingastarfinu sem stjórn og þjálfarar eru ákafalega stolt af.  Með gleði í forgrunni í starfinu næst það markmið í ár en ávallt er reynt að gera sem allra besta og bjóða upp á úrvalsþjónustu fyrir börn og unglinga í Mosfellsbæ.

Til merkis um hversu mikil umsvif deildarinnar eru þá eru margir flokkar deildarinnar að skipuleggja keppnis og æfinga ferðir á erlendri grund vor 2025 og sumar 2025 og verður gaman að upplýsa um það og tekið verður vonandi vel í það þegar unga fólkið gengur í hús og selur varning og hluti til þess að standa straum af kostnaði vegna þessara ferða.

Aðeins um flokkanna okkar

1.-4.bekkur Frábær stemmning hefur verið í þessum hópi það sem af er keppnistímabilinu en nálægt 70 börn eru skráð í þessum aldursflokki í Mosfellsbæ. Það er auðvitað ekkert annað en stórkostlegt og gleður þau sem að starfinu koma sá góði andi og mæting sem er í þessum aldursflokki. Þessu fylgir auðvitað lúxusvandi varðandi fjölda og gera allir sitt besta að nýta þá aðstöðu sem okkur stendur til boða fyrir þess flokka og vonandi opnast frekari möguleika um áramót þegar nýtt íþróttahús í Mosfellsbæ verður tekið í notkun. Yfir 20 börn, bæði stelpur og strákar eru skráð í 1.-2. bekk og fjöldinn er að nálgast 50 börn skráð í 3.-4. bekk.  Litla markmiðið var að ná 50-55 krökkum í þennan aldurshóp en háleitu markmiðin eru orðinn á þá leið að stækka ennþá meira.

Úr þessum hóp eru nú um 55 krakkar skráð í Fjölnismótið í byrjun nóvember eins og fyrr segir og má alveg fullyrða að sá fjöldi er með því mesta sem íþróttafélög senda til keppni frá ennþá stærri körfuboltadeildum á höfuðborgarsvæðinu og í raun í körfuboltanum á Íslandi.

Deildin er virkilega stolt af þessum krökkum og hlakka þjálfarar til þess að fylgja þeim á mótið en þetta mót er frábært “fyrsta mót “ sérstaklega svona í upphafi árs fyrir krakkanna. Mikið fjör, margir leikir og gaman.  Hvetjum alla foreldra til þess að taka virkan þátt í starfinu, fylgja börnunum á mótin og styðja Aftureldingu.

5.-6.bekkur Mikil sóknarfæri eru í flokkunum en 15 krakkar núna skráðir í þessa flokka og vilji til að fjölga og því má endilega hvetja alla til þess að láta vita af æfingum og að tekið er vel á móti nýjum andlitum í þennan flokk.  Margir nýir krakkar eru þó að hefja leik I þessum aldursflokki og því mikið svigrúm til þess að bæta sig, prófa leikinn frábæra og koma að æfa, taka þátt í þessari ört vaxandi körfuboltadeild.  Þau munu fara í sína fyrstu Íslandsmót / keppnisleiki núna í nóvember en hvor flokkur keppir þá á höfuðborgarsvæðinu og verður gaman að fylgjast með þessum hópum vaxa og dafna í vetur.