Afturelding fær Reyni í heimsókn á fimmtudag

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Afturelding vann sætan sigur í uppbótartíma í Hveragerði í síðasta leik og komst þar með á sigurbraut að nýju eftir svekkjandi tap gegn ÍR þar á undan. Arnór Snær skoraði markið og er markahæstur ásamt Wentzel Steinarri með tvö mörk í fyrstu fimm leikjunum. Strákarnir eru í fjórða sæti deildarinnar en mótið er stutt komið og jafnt og gæti sigur komið strákunum í efsta sætið ef aðrir leikir spilast okkur í hag.

Liðin hafa mæst nokkuð reglulega undanfarin ár og hefur okkar strákum gengið vel gegn Suðurnesjapiltum. Afturelding hefur unnið síðustu fjóra deildarleiki og ekki tapað síðan í ágúst 2010 gegn Reyni.

Reynir hefur farið illa af stað í deildinni, tapaði fjórum fyrstu leikjunum en braut loks ísinn með sigri gegn Ægi í síðustu umferð og sitja sem stendur í ellefta og næstneðsta sæti. Sandgerðingar eru þó engir aukvisar enda undir stjórn Atla Eðvalds og Kjartans Mássonar sem hafa marga fjöruna sopið í boltanum og eru alltaf líklegir til að minna á sig á fótboltavellinum

Allir á völlinn – Áfram Afturelding !
Mynd: Raggi Óla