Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar hefur haldið mót fyrir yngstu aldursflokkana á Tungubökkum mörg undanfarin ár og reyndar nær saga knattspyrnumóta á Bökkunum enn lengra aftur í tímann. Síðustu ár hafa þátttakendur verið um og yfir 1.000 og mikið líf og fjör á mótssvæðinu.
Undanfarin fjögur ár var það fyrirtækið Atlantis Group sem styrkti mótahaldið og bar þá mótið nafn fyrirtækisins eða Atlantismótið. Í ár er það hinsvegar hin þekkta sportvöruverslun Intersport sem hefur tekið að sér að styðja við bakið á mótinu og er Intersport fært bestu þakkir fyrir stuðninginn.
Mótið fer fram helgina 31.ágúst og 1.september og er hluti af bæjarhátíðinni „Í Túninu heima“ sem haldin er þessa sömu helgi þannig að gestir ættu að geta fundið sér ýmislegt til skemmtunar og fróðleiks í bænum á milli leikja.
Keppt verður að vanda í 6. og 7.flokki karla og kvenna og 8.flokki barna með hefðbundnu hraðmótsfyrirkomulagi þar sem allir eru sigurvegarar. Keppt verður í 5 manna liðum samkvæmt nýjum reglum KSÍ. Skráning á mótið er í fullum gangi og allar upplýsingar eru veittar með tölvupósti í netfangið fotbolti@afturelding.is og á upplýsingasíðu mótsins: https://afturelding.is/knattspyrna/intersport.html