Valur hafði nauman sigur á síðustu metrunum

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Lið Aftureldingar átti skínandi góðan leik og ljóst að það yrði ekkert gefið eftir gegn gríðarlega vel mönnuðu Valsliði sem tefldi fram hinum þrautreyndu landsliðskonum, Eddu Garðarsdóttur og Ólínu Viðarsdóttur í fyrsta sinn í sumar. Fyrri hálfleikur var jafn og voru heimamenn heldur hættulegri uppvið mark andstæðinganna og átti Telma tvö dauðafæri auk þess sem Lára Kristín átti hörkuskalla rétt framhjá en staðan þó markalaus í leikhléi.

Í síðari hálfleik þyngdist eilítið pressa gestanna. Megan í markinu þurfti að taka á honum stóra sínum í tvígang en annars var vörn Aftureldingar vel á verði og gaf fá opin færi á sér þó hálffæri væru nokkur. Undir blálokin féll þó Elín Metta Jensen við litla snertingu og fiskaði aukaspyrnu út við endalínu. Dóra María Lárusdóttir tók spyrnuna og fann kollinn á Ólínu Viðarsdóttur sem skoraði flott skallamark og óneitanlega sannkallað EM þema þar á ferð hjá Valskonum.

Afturelding gerði mikla atlögu að marki Vals á síðustu mínútunum en án árangurs og úrslitin því 0-1. Óhætt er að segja að það hafi litlu munað að stelpurnar okkar næðu a.m.k. einu stigi og í raun grátleg óheppni að svo fór ekki. Liðið lék mjög vel, allir leikmenn lögðu sig 100% í verkefnið og ljóst að liðið verður ekki auðsigrað í síðari umferðinni ef vinnuframlagið verður jafn flott og í þessum leik.

Telma var ógnandi í sókninni og kom sér í flott færi, sérstaklega í fyrri hálfleik og inná miðjunni voru Lára Kristín og Aldís duglegar. Öll vörnin lék frábærlega vel og sérstaklega er vert að minnast á leik Cecilia Maria Marrero sem var öflug í sínum fyrsta leik fyrir félagið. Fremst meðal jafningja er þó valin Megan Link markvörður sem átti stórleik og er útnefnd maður leiksins að þessu sinni.

Lið Aftureldingar: Megan – Kristrún, Cecilia, Jenna, Guðný Lena – Helga Dagný, Lára Kristín, Aldís – Sigga, Valdís, Telma. Varamenn: Svandís, Hafdís, Kristín T, Eydís, Sandra, Guðrún Sól og Stefanía.

Mynd: Tryggvi Þ.