Lið Aftureldingar átti skínandi góðan leik og ljóst að það yrði ekkert gefið eftir gegn gríðarlega vel mönnuðu Valsliði sem tefldi fram hinum þrautreyndu landsliðskonum, Eddu Garðarsdóttur og Ólínu Viðarsdóttur í fyrsta sinn í sumar. Fyrri hálfleikur var jafn og voru heimamenn heldur hættulegri uppvið mark andstæðinganna og átti Telma tvö dauðafæri auk þess sem Lára Kristín átti hörkuskalla rétt framhjá en staðan þó markalaus í leikhléi.
Í síðari hálfleik þyngdist eilítið pressa gestanna. Megan í markinu þurfti að taka á honum stóra sínum í tvígang en annars var vörn Aftureldingar vel á verði og gaf fá opin færi á sér þó hálffæri væru nokkur. Undir blálokin féll þó Elín Metta Jensen við litla snertingu og fiskaði aukaspyrnu út við endalínu. Dóra María Lárusdóttir tók spyrnuna og fann kollinn á Ólínu Viðarsdóttur sem skoraði flott skallamark og óneitanlega sannkallað EM þema þar á ferð hjá Valskonum.
Afturelding gerði mikla atlögu að marki Vals á síðustu mínútunum en án árangurs og úrslitin því 0-1. Óhætt er að segja að það hafi litlu munað að stelpurnar okkar næðu a.m.k. einu stigi og í raun grátleg óheppni að svo fór ekki. Liðið lék mjög vel, allir leikmenn lögðu sig 100% í verkefnið og ljóst að liðið verður ekki auðsigrað í síðari umferðinni ef vinnuframlagið verður jafn flott og í þessum leik.
Telma var ógnandi í sókninni og kom sér í flott færi, sérstaklega í fyrri hálfleik og inná miðjunni voru Lára Kristín og Aldís duglegar. Öll vörnin lék frábærlega vel og sérstaklega er vert að minnast á leik Cecilia Maria Marrero sem var öflug í sínum fyrsta leik fyrir félagið. Fremst meðal jafningja er þó valin Megan Link markvörður sem átti stórleik og er útnefnd maður leiksins að þessu sinni.
Lið Aftureldingar: Megan – Kristrún, Cecilia, Jenna, Guðný Lena – Helga Dagný, Lára Kristín, Aldís – Sigga, Valdís, Telma. Varamenn: Svandís, Hafdís, Kristín T, Eydís, Sandra, Guðrún Sól og Stefanía.
Mynd: Tryggvi Þ.