Góður sigur á Sindramönnum

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Fyrri hálfleikur var í rólegra laginu og menn lengi í gang. Gestirnir komust svo yfir eftir skyndisókn eftir rúmar 20 mínútur og þá fóru okkar menn loks að sýna hvað í þeim býr. Wentzel Steinarr jafnaði metin eftir rúman hálftíma og staðan var 1-1 í hálfleik.

Eftir hlé komu Aftureldingarmenn vel stemmdir til leiks og þeir Axel Lárusson og Magnús Már Einarsson skoruðu sitt hvor markið í upphafi seinni hálfleiks eftir að Helgi Sigurðsson hafði unnið flotta undirbúningsvinnu í báðum sóknum.

Undir lokin reyndu gestirnir hvað þeir gátu til að minnka muninn og tókst það reyndar en lengra komust þeir ekki og úrslitin 3-2 fyrir Aftureldingu. Maður leiksins hjá okkur var valinn Steinar Ægisson.

Afturelding er nú í öðru sæti deildarinnar þegar þrír leikir eru eftir og strákarnir eru nú með örlög sín í eigin höndum í baráttunni um 1.deildar sæti.

Næsti leikur er á heimavelli á fimmtudag gegn Gróttu.