Afturelding gengur frá ráðningu þjálfara í yngri flokka starfið

Körfuknattleiksdeild AftureldingarKörfubolti

Starf körfuknattleiksdeildar Aftureldingar er allt að taka á sig mynd fyrir næsta vetur.  Deildin hefur gengið frá samningum við þrjá þjálfara sem taka að sér þjálfun yngri flokka deildarinnar.

Heimamaðurinn Hlynur Logi Ingólfsson heldur áfram sem þjálfari yngri flokka

Hlynur Logi Ingólfsson mun sjá um þjálfun 9. og 10. flokks ásamt því að verða þjálfara meistaraflokks innan handar með þjálfun meistaraflokks karla. Hlynur Logi hefur starfað sem þjálfari hjá Aftureldingu síðustu ár og hefur á þeim tíma tekið virkan þátt í uppbyggingu yngri flokka körfuknattleiksdeildarinnar. Með eljusemi og metnaði hefur hann lagt sitt af mörkum til að efla bæði leikmenn og umgjörð í starfi deildarinnar.

„Það er okkur mikil ánægja að Hlynur Logi haldi áfram með okkur. Hann er öflugur þjálfari sem hefur vaxið mikið í starfinu okkar sem nýtur virðingar meðal leikmanna, foreldra og félaga innan deildarinnar. Við bindum miklar vonir við áframhaldandi samstarf og hlökkum til að halda áfram að styrkja og efla starfið,“ segir Sævaldur Bjarnason, yfirþjálfari KKD-Aftureldingar um áframhaldandi samstarf við Hlyn Loga.

Eiríkur Karlsson heldur áfram þjálfun hjá Aftureldingu körfubolta

Afturelding hefur einnig gert nýjan samning við Eirík Karlsson, sem mun sinna þjálfun 7. og 8. flokks drengja en einnig koma að þjálfun 10. flokks drengja.  Eiríkur verður því áfram virkur þátttakandi á þeirri körfuboltavegferð sem félagið er á. Hann hefur einnig sinnt morgunæfingum af miklum metnaði og fagmennsku, þar sem hann hefur stutt við leikmenn á öllum stigum í sinni þróun.

„Það er afar ánægjulegt að fá að halda áfram með Eirík innan okkar raða. Hann er ungur, efnilegur og metnaðarfullur þjálfari sem við viljum halda áfram að þróa og efla. Það skiptir okkur miklu máli að fá þjálfara beint úr okkar eigin félagi og efla og styrkja starfið innan frá og Eiríkur er einmitt Mosfellingur í húð og hár,“ segir Sævaldur.  Hann nefnir ennfremur að það sé mikill kostur fyrir svo unga körfuboltadeild að þessir þjálfarar kjósi að vinna áfram með hjá félaginu.

Sigurður Stefán nýr þjálfari yngri flokka hjá Aftureldingu körfubolta

Körfuknattleiksdeild Aftureldingar býður nýjan þjálfara velkominn til liðs við félagið. Sigurður Stefán Jónsson hefur verið ráðinn sem þjálfari yngri flokka, með sérstaka áherslu á 1.–4. bekk á komandi tímabili, en einnig verður hann í teymi með Sævaldi í 5. bekk félagsins.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Sigurður Stefán þegar aflað sér dýrmætrar reynslu í þjálfun. Hann hefur þjálfað sambærilega aldurshópa hjá Tindastóli síðustu tvö keppnistímabil og sýnt þar mikinn metnað og fagmennsku í starfi. Sigurður Stefán flytur nú til höfuðborgarsvæðisins úr Skagafjarðarsælunni og mun ganga til liðs við þjálfarateymi Aftureldingar.

„Við erum spennt að fá Sigurð Stefán inn í okkar starf. En þökkum á sama tíma Ólafi Jónasi fyrir hans framlag og frábæra vinnu hjá okkur í Aftureldingu og hlökkum til að fá hann aftur inn í starfið þegar hægist á hans vígstöðvum.  Það verður mikill missir af Ólafi og hans reynslu en við gerum okkur vonir um að Sigurður, sem kemur úr öflugu körfuboltaumhverfi í Skagafirði, beri með sér með ferska vinda, metnað og kraft í okkar þjálfarahóp,“ segir Heiðar Logi formaður körfuknattleiksdeildarinnar.

Starf yngri flokka hvers félags er burðarás í framtíð allt körfuboltastaf og er ánægjulegt að tryggja áframhaldandi faglegt starf með metnaðarfullum þjálfurum.