Ungt Aftureldingarlið spilaði af krafti í fyrsta leik – Valsmenn fóru þó heim með sigurinn að lokum

Körfuknattleiksdeild AftureldingarKörfubolti

„hörkufín frammistaða hjá strákunum sem gefur góð fyrirheit“

Meistaraflokkur karla í körfubolta hjá Aftureldingu hóf keppnistímabilið í kvöld með útileik gegn Fylki/Val U í Valsheimilinu. Gestirnir frá Mosfellsbæ léku af miklum krafti, en heimamenn báru að lokum sigur úr bítum, 87–74, eftir fjörugan og hraðan leik.

Afturelding byrjaði leikinn frábærlega og leiddi með níu stigum í hálfleik, 48–39. Ungu leikmennirnir sýndu gott samspil og fundu lausnir gegn sterkri vörn Valsmanna. Í þriðja leikhluta stilltu heimamenn þó upp leikmönnum úr úrvalsdeildarhóp sínum, náðu að saxa á forskotið og unnu leikhlutann 27–10. Það reyndist lykilatriði í að snúa leiknum sér í hag. Mosfellingar gáfust þó ekki upp og reyndu að búa til áhlaup í fjórða leikhluta, en Valsmenn héldu forystunni og tryggðu sér sigurinn, 87–74. Þrátt fyrir tap var þetta jákvæður og lofandi fyrsti leikur fyrir unga og efnilega sveit Aftureldingar.

Ólafur Snær Eyjólfsson var stigahæstur hjá Mosfellingum með 24 stig í sínum fyrsta leik með liðinu. Hann er yngri bróðir Árna Braga Eyjólfssonar, fyrirliða handboltaliðs Aftureldingar, sem flestir Mosfellingar þekkja vel. Alexander Jón Finnsson skoraði 16 stig og Óskar Víkingur Davíðsson 6 stig en þessir leikmenn eru úr eldri og reyndari hluta meistaraflokksins.  Yngri leikmenn úr 11. og 10. flokki stóðu sig einnig vel, Sigurbjörn Einar bætti við 8 stigum, Björgvin Már 6 stigum, Sigurður Máni 5, Ísak Rökkvi 4 , Dilanas 3 stig og Kristófer Óli 2 stig. Ari Kristinn, Símon Logi og Vignir Snær komu einnig við sögu og stóðu sig vel þótt þeir næðu ekki að skora að þessu sinni.

Sótt á körfuna

Lið Aftureldingar er að stórum hluta skipað leikmönnum úr hinum efnilega 11. flokki félagsins, flestir fæddir 2009 og 2010, sem eru nú á fyrsta ári í framhaldsskóla eða enn í grunnskóla. Með þeim eru eldri leikmenn sem veita forystu og eru góðar fyrirmyndir. Óhætt er að segja að þessi hópur ætli að leggja allt á gólfið í vetur og spennandi verður að fylgjast með framgangi liðsins í komandi átökum.

Körfuboltastarfið í fullum gangi

Körfuboltastarf Aftureldingar er nú farið á fullt með fjölda leikja í öllum flokkum. Leikir félagsins eru auglýstir á samfélagsmiðlum og mikil tilhlökkun ríkir hjá leikmönnum, þjálfurum og stuðningsfólki að körfuboltatímabilið sé loksins hafið.

Við hvetjum alla til að kíkja í körfu í Varmá – hún er fyrir alla!

Áfram gakk!