Strákarnir í 8., 9. og 10. flokki kepptu um helgina

Körfuknattleiksdeild AftureldingarKörfubolti

Nú um helgina var spilað í 8. til 10. flokki í Íslandsmótinu í körfubolta.  10. flokkur drengja spiluðu að Varmá gegn Stjörnunni b. en Aftureldingarmenn byrjuðu leikinn sterkt skoruðu 20 fyrstu stigin og litu aldrei í baksýnisspegilinn eftir það og enduðu á að sigra leikinn nokkuð örugglega 100 stig gegn 66 stigum andstæðinganna.

9. flokkur karla b-lið, strákar fæddir 2011 léku síðan í dag sunnudag 23. nóvember frestaðan leik gegn Haukum b. Afturelding er með tvö lið í keppni í þessum aldursflokki og var þetta seinna liðið eins og fyrr segir sem spiluðu gegn Haukum b frá Hafnarfirði. Strákarnir byrjuðu leikinn sterkt, komust mest 14 stigum yfir um miðjan 3ja leikhluta, Haukarnir náðu þó að minnka muninn í 4. leikhluta niður í 2 stig.  Þá sögðu okkar menn hingað og ekki lengra og enduðu á því að sigra leikinn með 8 stiga mun 56-48.  Flottur sigur hjá strákunum í b-liðinu sem eru á góðu róli í sinni deild í 9. flokki karla.

Haukur Mikael Hauksson

Haukur Mikael

8. flokkur, strákar fæddir 2012, spilaði í sinni annarri umferð í Íslandsmóti um helgina. Mótið fór fram í Árbæ hjá Fylkismönnum í samstarfi við KR og Ármann. Afturelding sendir tvö lið til keppni í þessum aldursflokki og spilaði hvort lið 4 leiki. Góð tilþrif voru á löngum köflum hjá strákunum að þessu sinni, tveir glæstir sigrar í dag hjá A-liðinu sem dæmi en eitthvað var um veikindi í hópnum. Mest gildir þó vinátta og samheldni þeirra en að frumkvæði drengjanna spiluðu þeir með sorgarbönd í þessu móti til heiðurs og minningar um Hauk Mikael Hauksson liðsfélaga þeirra sem féll frá fyrir rúmum 6 vikum síðan.

Haukur Mikael sem fæddur var 2012 var bráð efnilegur körfuboltastrákur, vinamargur og vinsæll í liðinu sem gríðarlegur missir er að. Það var því viðeigandi að liðsfélagar hans og vinir spiluðu með sorgarbönd í mótinu um helgina til minningar um þennan góða liðsfélaga og umfram allt góða dreng.

Körfuknattleiksdeild Aftureldingar, aðalstjórn Aftureldingar og þeir sem að körfuboltadeildinni og félaginu öllu koma vilja senda aðstandendum Hauks Mikaels sínar innilegustu samúðarkveðjur og styrk í sorginni en minningarnar um góðan dreng lifa með okkur og liðsfélögum hans um ókomin ár.

 

Fyrir hönd Aftureldingar

Sævaldur Bjarnason yfirþjálfari KKd. Aftureldingar

Heiðar Logi Jónsson, formaður KKd. Aftureldingar

Hrafn Ingvarsson, varaformaður Aftureldingar.

Einar Ingi Hrafnsson, Framkvæmdastjóri Aftureldingar