Það ríkti sannkölluð jólastemning á laugardagsmorguninn þegar haldin var foreldraæfing hjá yngstu hópunum okkar hjá Körfuknattleiksdeild Aftureldingar. Æfingin markaði upphaf jólafrís hjá þessum frábæru hópum og var mætingin virkilega góð. Salurinn fylltist af hlátri, gleði og samveru þar sem foreldrar og iðkendur æfðu saman við jólatónlist, nutu safa og mauluðu piparkökur í góðra vina hópi.

Jólastemning í Lágó
Svona stundir minna okkur á það sem skiptir mestu máli – gleðina, samfélagið og samheldnina sem íþróttastarf skapar. Körfuknattleiksdeild Aftureldingar er afar stolt af sínum iðkendum, foreldrum og öllu því öfluga starfi sem fer fram í félaginu.
Við viljum nýta tækifærið og óska öllum okkar iðkendum, foreldrum, forráðamönnum og öllum Mosfellingum innilega gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Megi nýtt ár færa okkur áframhaldandi körfubolta, gleði, vöxt og skemmtilegar stundir innan vallar sem utan.
Iðkendur í 7. flokki og eldri halda áfram að æfa af krafti yfir jólahátíðina, en 1.–6. bekkur fer nú í jólafrí líkt og grunnskólar Mosfellsbæjar og hefja æfingar að nýju þann 6. janúar 2026.

Gleðileg jól og takk fyrir frábært ár.

