Það var ekki að neinu að keppa fyrir liðin og mátti því kannski eiga von á rólegum leik en leikmenn beggja liða buðu þó uppá ágætis skemmtun og heilmikið skap þrátt fyrir það. Fyrstu tuttugu mínútur leiksins leit út fyrir að vallarstjóri hefði lokað öðrum helming vallarins því það var alger einstefna að marki gestanna og líklega hefur Afturelding haft boltann milli 80 og 90 prósent í upphafi leiks. Elvar Ingi Vignisson kom okkar mönnum yfir eftir korter og Ægismenn voru lítið í því að snerta boltann á þessum kafla leiks.
En smám saman jafnaðist þó tölfræðin þrátt fyrir að Afturelding væri áfram mikið betra. Alexander Aron Davorsson skoraði 2-0 eftir hálftíma leik og þó að leikmenn Ægis hættu sér af og til yfir á vallarhelming heimamanna sköpuðu þeir sér ekki sérstök færi og staðan 2-0 fyrir Aftureldingu í hálfleik. Eftir hlé var rólegra yfir leiknum framanaf og bæði lið áttu sínar sóknir. Elvar Ingi skoraði aftur þegar um klukkutími var liðinn og Magnús Már Einarsson skoraði fjórða mark Aftureldingar stundarfjórðungi síðar.
Seint í leiknum skoraði svo Steinar Ægisson fimmta mark okkar manna og 5-0 sigur í höfn. Sigurinn hefði getað orðið stærri ef menn hefðu haft að einhverju að keppa en flottur leikur og sannfærandi sigur. Vallaraðstæður á Varmá voru hinsvegar afar slæmar og er aðalvöllurinn orðinn mjög lélegur eftir veðurfarið í sumar. Vonandi verður gert átak í því að laga hann til en vísir menn tala um að jafnvel þurfi að taka hann alveg upp og skipta um jarðveg.
Afturelding endar sumarið í þriðja sæti, aðeins einu stigi á eftir HK og KV sem fara upp um deild. Nær er varla hægt að komast og ljóst að hægt er að finna til leiki fyrr í sumar þar sem uppskeran hefði mátt vera betri. En það þýðir ekki að fást um það svona eftirá og nú taka allir höndum saman og klára þennan síðasta vegartálma næsta sumar í staðinn.
Áfram Afturelding !