Telma skorar og skorar

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Telma Hjaltalín Þrastardóttir er þar í stóru hlutverki og hefur skorað grimmt fyrir íslenska liðið. Ísland vann Búlgaríu á laugardag 5-0 og Slóvakíu með sama mun á mánudag og skoraði Telma tvö mörk í hvorum leik eða alls fjögur mörk. Ísland leiðir sinn riðil þegar þetta er skrifað en á eftir að mæta Frökkum sem virðast vera með afar sterkt lið og hafa unnið báða sína leiki eins og íslenska liðið og hafa reyndar betra markahlutfall sem munar einu marki.

Telma gekk til liðs við norska liðið Stabæk í haust og hún er þegar farin að koma við sögu hjá aðalliði Stabæk sem stefnir ótrautt að Noregsmeistaratitli. Telma kom inná í leik Stabæk við Klepp í norsku úrvalsdeildinni á dögunum en hún lék einnig með B-liði Stabæk einn leik og skoraði þar tvö mörk áður en hún hélt til móts við íslenska landsliðshópinn.

Þess má einnig geta að Ingunn Haraldsdóttir hefur leikið báða leikina í mótinu með U19 en Ingunn lék síðari helming Pepsideildarinnar með Aftureldingu á láni frá Val og stóð sig með mikilli prýði.