Afturelding að semja við efnilegar stúlkur

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Knattspyrnudeild er gleðiefni að tilkynna að fjórar af okkar efnilegustu leikmönnum hafa gert samning við félagið til næstu tveggja ára.

Þetta eru þær Eydís Embla Lúðvíksdóttir, Hildur Ýr Þórðardóttir, Hrefna Guðrún Pétursdóttir og Valdís Björg Friðriksdóttir.

Eydís Embla er varnartengiliður sem lék sína fyrstu leiki fyrir meistaraflokk sumarið 2012 en í fyrra vann hún sig inní byrjunarlið Aftureldingar og lék alls 10 leiki í Pepsideildinni. Hún vakti mikla athygli fyrir frammistöðu sína og var valin til úrtaksæfinga hjá U19 landsliðinu í kjölfarið

Hildur Ýr leikur sem vinstri bakvörður eða á kantinum. Hún hefur komið við sögu í æfingaleikjum með meistarflokki og mun án efa fá sitt fyrsta tækifæri í deild eða bikar í sumar.

Hrefna Guðrún er miðvörður en getur leyst fleiri stöður ef þörf krefur. Hún er uppalin hjá félaginu en lék með Breiðablik í nokkur ár við góðan orðstír áður en hún kom aftur til baka í fyrrasumar þegar hún lék átta leiki í Pepsideildinni. Hrefna á að baki 6 landsleiki með U17 og hefur einnig verið valin á úrtaksæfingar með U19.

Valdís Björg er framherji sem hefur verið dugleg við markaskorun í yngri flokkunum og er fastagestur á listum yfir markahæstu leikmenn. Líkt og Eydís lék hún sína fyrstu leiki sumarið 2012 en í fyrra var hún í stærra hlutverki og lék þá 10 leiki í Pepsideildinni og einn í bikarnum.

Þessar stúlkur eru allar fæddar árið 1996 og er vænst mikils af þeim á næstu árum. Þrjár jafnöldrur þeirra hafa einnig gengið frá samningum við félagið og verða þær kynntar hér á næstunni en til gamans má rifja það upp að þessi öflugi árgangur varð einmitt Íslandsmeistari í 5.flokki árið 2008.

Á mynd frá vinstri: Eydís Embla, Hildur Ýr, Valdís Björg og Hrefna Guðrún.