Leikið var í Akraneshöllinni og var leikurinn ágætlega leikinn af hálfu okkar manna. Alexander Aron Davorsson náði forystunni fyrir Aftureldingu með marki úr vítaspyrnu eftir rúmlega tuttugu mínútna leik og stóð þannig í hálfleik. Undir blálokin kom framherjinn reyndi, Garðar Bergmann Gunnlaugsson heimamönnum til bjargar þegar hann jafnaði metin í 1-1 sem reyndust lokatölur leiksins.
Eftir leikinn sagði Atli Eðvaldsson þjálfari Aftureldingar aðspurður um frammistöðu liðsins: „Á köflum mjög góð. Vinna gegn bolta var sérstaklega góð í fyrri hálfleik og hann spilaðist mjög vel hjá okkur og við héldum boltanum oft á tíðum mjög vel og vorum að vinna hann á mjög hættulegum stöðum,“ sagði Atli í viðtali við Fótbolta.net.
„Ég get sagt að við erum ánægðir með þetta. Þetta er stígandi og vissum að þetta yrði mjög erfitt þar sem við misstum tvo menn einmitt hingað upp á Skaga. Við höfum fengið að taka þátt í deildabikarnum með fyrstu- og úrvalsdeildarliðunum og höfum sýnt mikinn stíganda í spilamennsku“
Wentzel Steinarr Ragnarsson Kamban, fyrrum liðsmaður Aftureldingar og knattspyrnumaður ársins 2012 með meiru gekk til liðs við ÍA í vetur og var í byrjunarliði Skagamanna en Arnór Snær Guðmundsson sem einnig er kominn til ÍA var hinsvegar ekki með en hann á við meiðsli að stríða.
Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://fotbolti.net/news/23-03-2014/atli-edvaldsson-thad-verdur-dortmund-og-bayern-blanda-i-sumar#ixzz2x4H5CY8x
Afturelding er þá komin með fjögur stig úr sex leikjum og mætir Breiðablik í síðasta leik 12.apríl n.k. í Fífunnni. Þess má geta að kvennalið Aftureldingar hefur leik um helgina og fær þá ÍA í heimsókn á Varmárvöll á laugardaginn kl 13:00