Mikilvægur leikur í Pepsideildinni í kvöld

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Þetta er geysilega mikilvægur leikur fyrir bæði lið sem hafa byrjað deildina rólega og sitja í tveimur neðstu sætunum sem stendur.

Afturelding á heilmikið inni og sýndi það í síðustu leikjum fyrir landsleikjahléið að það er heilmikið í liðið spunnið og aðeins tímaspursmál hvenær stelpurnar fara að uppskera eins og þær hafa til sáð. Liðið lék vel bæði gegn Þór/KA og Val en átti síðri dag gegn ÍBV og það má búast við að þær mæti ákveðnar til leiks í kvöld.

ÍA er nýliði í efstu deild og eins og við var búist hafa Skagastúlkur átt á brattann að sækja hingað til í deildinni. Lið þeirra er nokkuð ungt og óreynt en eins og allir knattspyrnumenn þekkja þá kunna menn að spila fótbolta á Akranesi og því ljóst að það mun alvöru fótboltalið mæta til leiks hvað sem staðan í deildinni segir.   

Afturelding og ÍA hafa ekki mæst í deildarkeppni síðan 1996 en á undirbúningstímabilinu í vor vann ÍA 3-2 í Lengjubikarnum og verður spennandi að sjá hvar liðin standa núna þremur mánuðum seinna.

Knattspyrnudeild hvetur Mosfellinga til að mæta á völlinni og styðja stelpurnar sínar – Áfram Afturelding !