Leikurinn fór rólega af stað og bæði lið vildu greinilega þreifa aðeins fyrir sér. Fátt var um færi og lítil hætta uppvið mörkin. Afturelding var meira með boltann til að byrja með og fyrsta almennilega færið leit dagsins ljós eftir um stundarfjórðung þegar Courtney Conrad átti skot að marki eftir góðan sprett hjá Sigríði Þóru Birgisdóttur.
Stuttu síðar sóttu gestirnir og Mist Elíasdóttir varði vel skalla eftir horn og hinu megin skapaði Stefanía Valdimarsdóttir hættu þegar hún náði boltanum uppvið endamörk á undan markmanni Þórs/KA en það rann þó út í sandinn. Gestirnir svöruðu með góðri sókn en Mist var vel á verði og kom út og hirti boltann af sóknarmanni andstæðinganna. Besta færi leiksins kom svo okkar megin þegar Steinunn Sigurjónsdóttir átti flotta sendingu inní teig á Siggu sem sneri af sér tvo varnarmenn og lagði boltann út á Helen Lynskey sem átti þrumuskot í slá.
Í síðari hálfleik var áfram sama baráttan og færin fá. Minnstu munaði að Þór/KA næði að búa til hættu þegar sóknarmaður þeirra stal boltanum af Mist út við endalínu en varnarmenn okkar lokuðu vel og ekkert varð úr.
En á 64.mínútu kom langt útspark frá markmanni Þórs/KA og skyndilega var Thanai Annis komin ein í gegn og náði að skalla boltann yfir Mist sem kom út úr marki sínu og gestirnir komnir yfir. Norðanstúlkur fengu svo ágætt færi stuttu síðar en hittu ekki á markið.
Það sem eftir lifði leiks var hart barist um alla bolta og varnirnar í aðalhlutverki. Afturelding átti nokkra kafla þar sem við pressuðum án þess þó að ná að opna vörn gestanna sem beittu skyndisóknum á móti. Pressa Aftureldingar var orðin nánast látlaus undir lokin en ekki tókst að skora hið dýrmæta jöfnunarmark og sigur Akureyringa því staðreynd.
Afturelding getur svo sannarlega nagað sig í handarbökin að hafa ekki fengið eitthvað útúr þessum leik. Liðið var heilt yfir betri aðilinn í leiknum og átti þrumuskot í slá en það vantaði herslumuninn á að skapa betri færi úr nokkrum lofandi sóknum. Vörnin átti svör við flestum tilraunum gestanna og þau fáu færi sem þeir fengu geta vart flokkast sem dauðafæri.
Stelpurnar okkar léku ágætlega í leik þar sem baráttan og leikskipulagið var í aðalhlutverki og hvorugt lið var tilbúið til að taka áhættu. Varnarleikur liðsins var prýðilegur og færi gestanna talin á fingrum annarar handar en sama má líklega segja um vörn andstæðinganna því sóknarmenn okkar fengu úr afar litlu að moða.
Afturelding er því enn í næstneðsta sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir FH en með talsvert betra markahlutfall þannig að öll nótt er svo sannarlega ekki úti enn. Næsti leikur er eftir landsleikjahlé í Vestmannaeyjum, 26.ágúst nk.
Lið Aftureldingar:
Mist
Steinunn (Kristrún 66) – Hrefna – Lilja – Inga
Helen – Heiðrún – Edda (Kristín Ösp 72)
Stefanía – Sigga – Courtney (Valdís 85)