Afturelding er Íslandsmeistari !

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Stelpurnar okkar mættu liði Álftanes í úrslitaleik en liðin voru í sama riðli í undankeppninni og þá hafði Afturelding betur í báðum leikjum.

Álftanes byrjaði betur og lék stífan og vel skipulagðan varnarleik sem skilaði þeim svo marki úr skyndisókn snemma leiks. Afturelding var hinsvegar að mestu með boltann og reyndi að finna glufur á varnarmúr andstæðinganna en án árangurs og Álftanes náði að lauma inn öðru marki fyrir hlé.

Staðan var 2-0 í hálfleik og sá síðari byrjaði á svipuðum nótum og sá fyrri, Álftanes pakkaði í vörn en Afturelding hélt boltanum. Það var loks Gunnhildur Ómarsdóttir sem sá við vörn andstæðinganna þegar hún fylgdi vel á eftir þungri sókn þegar komið var fram í miðjan hálfleik.

Þegar 5 mínútur voru eftir jafnaði svo Hrefna Guðrún Pétursdóttur leikinn með hnitmiðuðu langskoti en Álftanes svaraði að bragði. Afturelding fékk víti sem við náðum ekki að nýta en undir blálokin jafnaði Stefanía Valdimarsdóttir leikinn í 3-3 og grípa þurfti til framlengingar.

Í framlengingunni var Afturelding betri aðilinn og Stefanía bætti við tveimur mörkum í viðbót í sitt hvorum hálfleiknum og 5-3 sigur staðreynd.

Meistaraflokkur kvenna er því Íslandsmeistari í Futsal, eða innanhúsknattspyrnu og mun þetta vera fyrsti Íslandsmeistaratitill Aftureldingar í meistaraflokki í knattspyrnu.

Til hamingju stelpur og til hamingju Afturelding !