Afturelding leikur til úrslita !

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Afturelding mun mæta Sindra frá Hornafirði en leikið verður í Kórnum í Kópavogi og hefst leikurinn kl 12:00 á sunnudaginn.

Afturelding tryggði sér sætið í úrslitaleiknum með góðum sigri á Leikni frá Fáskrúðsfirði á fimmtudag en þeim leik lyktaði með 2-1 sigri okkar. Leiknismenn komust yfir á fyrstu mínútu leiksins en Wentzel Steinarr jafnaði metin fyrir okkar menn.

Þannig var staðan þartil undir lok leiksins þegar Steinarr var aftur á ferðinni og setti inn sigurmarkið með lúmsku skoti u.þ.b. frá vítateigslínu, hárnákvæmt í fjærhornið fáeinum millimetrum frá fingralöngum markmanni gestanna.

Aðeins vantaði uppá skemmtanagildi leiksins og verður hann líklega ekki gefinn út á DVD en góð upphitun engu að síður fyrir alvöruna þegar Íslandsmótið fer í gang.

Leiknismenn stóðu sig vel í 3ju deildinni í fyrra og komust uppí 2.deild og líta ágætlega út. Þeir eru með skipulagt og öflugt lið og eiga eflaust eftir að spjara sig ágætlega í sumar. Afturelding var þó heilt yfir betri aðilinn og hafði átt nokkrar hættulegar sóknir áður en sigurmarkið loksins kom.

Knattspyrnudeild hvetur Mosfellinga til að kíkja í Kórinn á sunnudaginn kl 12:00 og hita þar upp raddbönd og rauða fána áður en haldið verður í N1 höllina að Varmá kl 16:00 að styðja handboltaliðið okkar til dáða. Tilvalið er að koma við á leiðinni í Fagralundi þar sem stelpurnar okkkar í blakinu keppa um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kl 14:00.