Breiðablik er spáð velgengni í sumar í deildinni og af mörgum spáð titlinum enda valin kona í hverri stöðu. Aftureldingarstúlkur létu það þó ekki stöðva sig í að mæta af fullum krafti í leikinn og það var Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir sem skoraði fyrsta markið strax í upphafi leiks þegar hún hljóp af sér varnarmenn gestanna og setti boltann yfirvegað í markið. 1-0 fyrir Aftureldingu.
Leikurinn var jafn og spennandi það sem eftir lifði hálfleiks. Breiðablik hélt boltanum heldur meira en áttu fá færi og Mist varði vel í tvígang þegar á þurfti að halda.
Í síðari hálfleik voru gestirnir heldur ákveðnari og settu pressu á okkar stelpur. Eftir um tíu mínútna leik jafnaði Telma Þrastar metin og þannig stóð þar til undir blálokin að Breiðablik fann loks glufu á sterkri vörn Aftureldingar og bættu við fjórum mörkum og tryggðu sér þannig sigur.
Afturelding lék afar vel og skipulega lengst af og átti góða spretti. Breiðablik er þó með gríðarlega vel mannað lið sem gafst ekki upp og ljóst að þær grænu munu stefna hátt í sumar.
Í upphafi leiks var flutt kveðja í minningu Jóhönnu Gunnlaugsdóttur sem lést á sunnudagskvöld á Líknardeild Landsspítalans eftir erfið veikindi. Heimili Jóhönnu og fjölskyldu hefur um árabil staðið fótboltastelpum í Mosfellsbæ opið og vill Knattspyrnudeild Aftureldingar senda eiginmanni hennar, Tryggva Þorsteinssyni og Kristínu dóttur þeirra sínar innilegustu samúðarkveðjur.
Mynd: Mosfellingur/Raggi Óla