Kristinn Jens Bjartmarsson, eða Kjensi eins og hann er kallaður, gekk til liðs við Aftureldingu í febrúar 2015 og lék hverja einustu mínútu á Íslandsmótinu í sumar. Kristinn var lykilmaður í liði Aftureldingar og lék vel í sumar og fékk afgerandi kosningu sem leikmaður ársins á lokahófi Aftureldingar haustið 2015.
Kristinn er sókndjarfur bakvörður sem einnig getur spilað sem miðvörður. Kristinn er mikill leiðtogi og heyrist gjarnan mikið í honum á vellinum þar sem hann stjórnar og leiðbeinir liðsfélögum sínum allan leikinn. Rödd Kristins er sömuleiðis afar áberandi á æfingum og hann sættir sig aldrei við neitt nema að allir séu að leggja sig 100% fram.
Kristinn Jens var til fyrirmyndar innan sem utanvallar og hlýtur nafnbótina knattspyrnumaður ársins 2015.
Kristín Þóra Birgisdóttir er 17 ára gömul og lykilmaður í meistaraflokki kvenna. Hún lék sinn fyrsta meistaraflokksleik sumarið 2014 og nýliðið sumar lék Kristín 17 leiki auk fjögurra leikja fyrir U17 landslið Íslands.
Kristín sem fór á kostum sem bakvörður í Pepsideildinni í sumar, hefur leikið 29 leiki fyrir Aftureldingu og 11 leiki með U17 landsliði Íslands og hefur verið valin á úrtaksæfingar með U19 landsliðinu frá því í haust.
Kristín er einn efnilegasti leikmaður landsins og er Afturelding mjög stolt af henni fyrir störf hennar í þágu félagins. Kristín Þóra er frábær fyrirmynd yngri knattspyrnustúlkna, hógvær og skemmtilegur persónuleiki sem á framtíðina fyrir sér.