Góður sigur hjá strákunum

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Leikurinn byrjaði fjörlega því Afturelding skapaði sér tvö góð færi á upphafsmínútum leiksins. Grindavík tók svo smám saman völd á leiknum og hélt boltanum vel innan liðsins og pressuðu lið Aftureldingar vel. Eftir um 10-15 mínútna kafla náði Afturelding aftur taktinum og fór að leysa pressu Grindvikinga vel og fleiri og fleiri góðir spilkaflar litu dagsins ljós.

Eftir um hálftíma leik kom einn slíkur þar sem Afturelding lék vel upp vinstri kantinn og eftir fyrirgjöf frá Þorgeiri Leó mætti Egill Jóhannsson á fjærstöng og skoraði. Egill er miðjumaður og á reynslu hjá félaginu og er uppalinn hjá ÍBV og hefur leikið með Aftureldingu í stórgóðu móti Fótbolta.net en Aftureldingu var raðað í riðil með þremur liðum í 1. deild. Hálfleikstölur voru 1-0  og Afturelding betri aðilinn seinnipart fyrri hálfleiks.

Síðari hálfleikur var nokkuð opinn og fjörugur. Afturelding fékk dauðafæri strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks til að komast í 2-0 en illa gekk að nýta þau fjölmörgu færi til að tvöfalda forystuna. Grindvíkingar gerðu sitt besta til að ná jöfnunarmarki og sóttu á mörgum mönnum undir lokin og leikurinn keimlíkur tennisleik síðustu 5 mínútur leiksins.

Lokatölur 1-0, Aftureldingu í vil sem endar í 2.sæti riðilsins og leikur við Gróttu um 3. sætið næstu helgi.

Þá léku stelpurnar okkar við ÍA í Faxaflóamótinu um helgina og þar féllu hlutirnir heldur betur með gestunum sem unnu 4-0 í leik sem var býsna jafn þrátt fyrir úrslitin. Stelpurnar mæta Selfyssingum um næstu helgi.