Öruggur sigur á Varmárvelli

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Heimakonur voru sterkari aðilinn allt frá byrjun og eftir um stundarfjórðung kom fyrsta markið. Stefanía Valdimarsdóttir fékk þá boltann í miðjum vítateig, sneri laglega af sér varnarmann og lagði knöttinn í netið og Afturelding/Fram komið 1-0 yfir.

Um miðjan hálfleikinn kom mark númer tvö eftir glæsilegt uppspil í gegnum vörn gestanna þegar Amanda Mist Pálsdóttir var mætt á fjærstöng og afgreiddi fyrirgjöf frá hægri óverjandi í markið af stuttu færi og staðan 2-0.

Og enn bættu okkar stelpur um betur eftir rúman hálftíma þegar dæmd var aukaspyrna rétt við vítateigslínuna vinstra megin. Eva Rut Ásþórsdóttir mætti á svæðið og skoraði frábært mark, beint úr aukaspyrnunni yfir markmann Augnabliks og 3-0 komið á markatöfluna. Þannig stóð í hálfleik og hefði munurinn jafnvel getað verið meiri.

Í síðari hálfleik jafnaðist leikurinn aðeins en Afturelding/Fram hafði þó áfram undirtökin. Á 75.mínútu dró þó til tíðinda þegar sóknarmaður Augnabliks keyrði Selmu Líf Hlífarsdóttur markmann Aftureldingar harkalega niður í úthlaupi og lá Selma sárþjáð eftir. Dómari leiksins taldi þó ekki um snertingu að ræða og leyfði leiknum að halda áfram í góða stund með markmanninn óvígan og endaði það með að Augnablik kom boltanum í autt markið. Þrátt fyrir mikil mótmæli fékk markið að standa og eftir langa aðhlynningu fór Selma meidd af velli.

Heimastúlkur voru nokkar mínútur að komast í gang aftur en smám saman náðu þær yfirhöndinni aftur og undir lokin skoraði Matthildur Þórðardóttir fallegt skallamark eftir hornspyrnu og gulltryggði þar með 4-1 sigur og fullt hús stiga í deildinni eftir þrjá leiki.

Eva Rut Ásþórsdóttir var valin maður leiksins en auk hennar fagnar fréttaritari sérstaklega að sjá Eydísu Emblu Lúðvíksdóttur komna í kunnuglegt hlutverk varnartengiliðs en þær Eydís, Eva Rut og Sigrún Gunndís Harðardóttir réðu lögum og lofum á miðjunni og lögðu grunn að góðum sigri. Annars átti allt liðið fínan dag og er greinilega að slípast vel saman.

Afturelding/Fram er sem fyrr segir með fullt hús stiga, níu talsins eftir þrjá leiki og er í öðru sæti deildarinnar sem stendur en á leik til góða á Fjölni sem er með tíu stig eftir fjóra leiki. Næsti leikur er á Varmárvelli núna á sunnudaginn gegn Fjarðabyggð/Hött/Leikni sem eru á leið í bæinn og munu reyndar spila á Tungubökkum á föstudag gegn Hvíta Riddaranum.

Lið Aftureldingar: Selma Líf (Cecilía Rán), Matthildur, Valdís Ósk, Lilja Vigdís, Inga Laufey (Snjólaug), Eydís Embla, Eva Rut, Sigrún Gunndís, Lovísa Mjöll (Birna Sif), Amanda Mist (Gunnhildur), Stefanía