Sigurhelgi á Varmárvelli

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Meistaraflokkar kvenna og karla buðu upp á mikla sigurveislu á Varmárvelli um helgina. Stelpurnar okkar byrjuðu á föstudaginn þegar þær tóku á móti Gróttu. Staðráðnar í að gleyma þessu slysalega tapi úr síðustu umferð byrjuðu stelpurnar af miklum krafti og strax á 3ju mínútu skoraði Sigrún Gunndís eftir frábæran snúning og einleik í vítateig Gróttu. Tíu mínútum síðar átti Stefanía mikinn sprett upp hægri kantinn þar sem hún einfaldlega stakk varnarmenn Gróttu af og skoraði framhjá markverði Gróttu, staðan orðin 2-0 og einungis 13 mínútur búnar. En 5 mínútum síðar fengu Gróttustelpur réttmætt víti sem þær skoruðu úr af öryggi og náðu þarna í stutta stund að gera leikinn spennandi.

Eftir þetta róaðist leikurinn aðeins en þó voru okkar stelpur með talsverða yfirburði á vellinum. Þegar 10 mínútur lifðu af fyrri hálfleiknum færðist heldur betur fjör í leikinn. Fyrst skoraði Eva Rut í autt markið eftir frábæra sókn þar sem Gróttuvörnin var sundurspiluð og skömmu síðar var staðan orðin 4-1 þegar fyrirliðinn Valdís Ósk skoraði úr víti, renndi boltanum svellkalt í mitt markið eftir að markvörður Gróttu hafði farið af stað í annað hornið. Þó skammt lifði af fyrri hálfleik tókst Gróttu að minnka muninn aftur í 4-2 áður en flautað var til hálfleiks eftir vel útfærða sókn.

Í síðari hálfleik róaðist leikurinn talsvert þó að bæði lið hafi átt fínar sóknir og nokkur færi þá var það ekki fyrr en korter lifði leiks að Sigrún Gunndís rak síðasta naglann í kistu Gróttu með góðu viðstöðulausu skoti frá vítateig eftir fyrirgjöf frá hægri kanti. 5-2 sigur staðreynd og sigurbrautin fundinn á ný. Við týnum henni ekkert aftur 😉

Næsti heimaleikur hjá stelpunum verður athygliverð skemmtun því þá taka þær á móti vinaliðinu hér úr bænum, Hvíta Riddaranum. Sá leikur er 21. júlí.

 

Á laugardaginn tóku svo strákarnir á móti Vestra frá Ísafirði. Fyrir leikinn var Vestri með einu stigi meira en okkar strákar en júní var ekki mikill stigasöfnunar mánuður hjá okkur. Einungis einn sigur náðist í erfiðri fjögurra útileikja törn. Sigurinn náðist loks í síðasta leik mánaðarins og því afar mikilvægt að fylgja þeim sigri eftir með öðrum á heimavelli. 

Leikurinn byrjaði vel fyrir okkar stráka og strax á 10. mínútu skoraði varnarmaðurinn Einar Marteinsson eftir að skalli hafði verið varinn á marklínu frá Greg. Reyndar varði varnarmaður Vestra boltann með hendi og var auk þess langt inni í markinu en það kom sem betur fer ekki að sök því Einar náði að fylgja á eftir. Fyrir utan eitt bylmings langskot sem hafnaði í markstönginni þá ógnuðu Vestramenn afar lítið í fyrri hálfleik og gengu liðin því sanngjarnt til leikhlés í stöðunni 1-0. Það hefði þó alveg verið sanngjarnt ef við hefðum leitt með meiri mun í hálfleik því að Kristófer Örn fékk dauðafæri til að bæta við marki um miðjan hálfleikinn en skaut í utanvert hliðarnetið. Einnig átti Dagur frábært skot utan teigs sem hafnaði í markslánni.

Vestramenn komu mun ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og pressuðu okkar stráka af miklum móð og héldu boltanum talsvert betur en við gerðum án þess þó að skapa sér mikið. Við náðum þó nokkrum góðum sóknum sem sköpuðu hættuleg færi og við vorum alltaf hættulegir í föstum leikatriðum. Þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum fékk Vestri sitt eina færi í leiknum þegar leikmaður þeirra slapp einn í gegn á móti Eiði í markinu. Eiður lokaði vel og skotið fór í stöngina og endaði svo í fanginu á Eiði.

Strákarnir náðu þarna baráttusigri í höfn og afar mikilvæg þrjú stig sem halda liðinu inni í harðri toppbaráttu.

Næsti heimaleikur hjá strákunum er mánudaginn 10. júlí en þá taka þeir á móti Vesturbæingunum úr KV.