1.deildin hefst á morgun hjá stelpunum okkar

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Meistaraflokkur kvenna tekur þátt í 1.deildinni í sumar eftir átta ár í efstu deild. Liðið er í B-riðli ásamt Augnablik, Álftanesi, Fjölni, Grindavík, Gróttu, Haukum og Keflavík en leikin er tvöföld umferð áður en úrslitakeppni fer fram í september um 2 laus sæti í Pepsideildinni.

Þjálfari Aftureldingar er Júlíus Ármann Júlíusson en hann tók við liðinu um mitt sumar í fyrra. Júlli er þaulreyndur þjálfari með UEFA-A þjálfaragráðu og er mikill fengur fyrir félagið að hafa fengið hann til starfa.

Það hafa ekki orðið margar breytingar á liði Aftureldingar frá því í fyrra en liðið leikur þó án útlendinga í sumar. Engu að síður má reikna með að liðið verði í toppbaráttunni í 1.deild enda markmiðið að endurheimta Pepsideildarsætið.

Mist Elíasdóttir yfirgaf liðið í vor og gekk til liðs við ÍR en í staðinn eru komnir tveir stórefnilegir markmenn, þær Hafdís Erla Gunnarsdóttir frá FH og Selma Líf Hlífarsdóttir frá Breiðablik. Þær eru báðar nítján ára gamlar og eiga báðar landsleiki með U17 að baki þannig að markmannsstaðan verður í góðum höndum í sumar.

Vörnin er einnig vel skipuð. Líklega munu þær Katla Rún Arnórsdóttir, Tinna Björk Birgisdóttir og Valdís Ósk Sigurðardóttir keppa um miðvarðarstöðurnar en Eva Rún Þorsteinsdóttir, Halldóra Þóra Birgisdóttir og Snjólaug Heimisdóttir gætu hafið leik sem bakverðir. Hildur Ýr Þórðardóttir, Sif Elíasdóttir og Tinna Dofradóttir munu þó allar keppast um mínútur í vörninni.

Svandís Ösp Long og Hrefna Guðrún Pétursdóttir eru einnig öllum hnútum kunnugar í varnarleik en hafa ekki síður leikið inná miðjunni og verða þar væntanlega í sumar. Þar má einnig reikna með Guðný Lenu Jónsdóttur sem annars leikur um þessar mundir háskólabolta í Bandaríkjunum.

Annars verður Gunnhildur Ómarsdóttir án efa í lykilhlutverki inná miðjunni og þar verður einnig Sandra Dögg Björgvinsdóttir sem og Eydís Embla Lúðvíksdóttir og ef þær ná sér vel á strik í sumar má segja að miðsvæðið verði ekki árennilegt. Hin unga Eva Rut Ásþórsdóttir lék sínar fyrstu meistaraflokksmínútur í vetur og nokkrar fleiri efnilegar heimastúlkur æfðu að hluta með meistaraflokki í vetur og gæti einhver þeirra sömuleiðis fengið smjörþefinn af meistaraflokksfótbolta þegar líður á sumarið.

Framar á vellinum mun mæða mikið á Sigríði Þóru Birgisdóttur en hún mun fá góðan stuðning frá systur sinni Kristínu Þóru í sóknarleiknum. Valdís Björg Friðriksdóttir er að komast í leikform eftir krossbandameiðsli og hin efnilega Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir hefur spilað talsvert á undirbúningstímabilinu og fær án efa sínar mínútur í sumar.

Stefanía Valdimarsdóttir sem reiknað var með í stóru hlutverki í sumar hefur tekið að sér enn stærra hlutverk í einkalífinu og er komin í barnsburðarleyfi en í hennar stað hefur verið gengið frá lánssamningum við Elenu Brynjarsdóttur sem er átján ára framherji frá Breiðablik og Öldu Ólafsdóttur, nítján ára frá FH. Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir er þá á heimshornaflakki og kemur til liðs við okkur seinna í sumar.

Í okkar riðli virðast flest liðin nokkuð öflug og erfitt að gera uppá milli. Grindavík var með gott lið í fyrra og Keflavík hefur gengið vel á undirbúningstímabilinu. Haukar unnu C-deild Lengjubikarsins og Fjölnir verður eflaust með fínt lið í sumar eins og Augnablik og Álftanes en Grótta er að senda kvennalið til keppni í fyrsta sinn.

Í A-riðli eru nokkur öflug lið og líklega má búast við HK/Víking og Þrótti hvað sterkustum miðað við gengi þeirra undanfarin ár en einnig eru það ÍR, Fram, Víkingur Ólafsvík, Skínandi, Hvíti Riddarinn og KH. Í C-riðli eru svo liðin á norður og austurlandi og þar eru það Fjarðabyggð, Völsungur, Sindri, Hamrarnir, Einherji og Tindastóll sem keppa um sæti í úrslitakeppninni.

Fyrsti leikur Aftureldingar er gegn Augnablik á Varmárvelli þann 18.maí kl 20:00 og vill knattspyrnudeild hvetja Mosfellinga til að mæta á völlinn og styðja Aftureldingu til sigurs.