Fyrir leikinn voru allar taugar þandar því Afturelding þurfti á stigunum að halda í keppni við Fylki um að halda sæti sínu í deildinni. Fylkir mætti nýkrýndum Íslandsmeisturum Þórs/KA sem höfðu í raun ekki að neinu að keppa og því ljóst að ýmislegt gæti gerst í lokaumferðinni.
Carla Lee sem hefur verið iðin við mark andstæðinganna í sumar skoraði í upphafi leiks og útlitið því strax gott. En Valur náði að jafna eftir tæpan hálftíma og á sama tíma náði Fylkir forystu í sínum leik og því spennan í hámarki. En Carla bætti þá við öðru marki og þegar Lára Kristín Pedersen skoraði þriðja mark okkar létti áhyggjunum heldur. 3-1 í hálfleik.
Í síðari hálfleik minnkaði Valur muninn í 3-2 en Þór/KA jafnaði leikinn í Árbænum og útlitið því enn gott. Sigríður Þóra Birgisdóttir jók aftur forystu Aftureldingar og þegar fréttir bárust af því að norðanstúlkur væru komnar yfir gegn Fylki var ljóst að leikirnir væru að spilast okkur í hag og sætið í deildinni að tryggjast. Tvö mörk undir lokin hjá Val breyttu því engu og úrslitin 4-4.
Afturelding lýkur því leik í sjöunda sæti Pepsideildarinnar með 16 stig og leikur því í efstu deild að ári.
Knattspyrnudeild óskar stelpunum, þjálfara þeirra og aðstandendum til hamingju með þennan glæsilega árangur og Mosfellingum öllum sömuleiðis með þetta frábæra lið.