Gengi liðsins í sumar hefur ekki verið eins og vonast var til og eftir nokkra tapleiki í röð og sterkan lokasprett hjá neðstu liðum deildarinnar var allt í einu orðin æsispennandi fimm liða fallbarátta fyrir síðustu umferð.
Leikur liðanna bar þess nokkur merki að mikið var í húfi en sæti Ægis var einnig í hættu ef úrslit annarra leikja yrðu þeim óhagstæð. Fyrri hálfleikur var frekar rólegur og ekki mikið fréttnæmt en gestirnir áttu þó skot í slá úr aukaspyrnu en hinumegin virtist varnarmaður verja með hendi sömuleiðis eftir aukaspyrnu en ekkert var dæmt.
Í síðari hálfleik jókst hraðinn nokkuð og Afturelding pressaði stíft á kafla en þrátt fyrir nokkrar ágætar tilraunir tókst ekki að klára færin og leikurinn rann sitt skeið án þess að mark væri skorað.
Þegar dómarinn flautaði leikinn af fögnuðu Ægismenn sínu stigi sem tryggði þeim sætið sitt áfram en strákarnir okkar urðu að bíða í nokkrar spennuþrungnar mínútur áður en í ljós kom að tíunda sætið reyndist okkar og þar með áframhaldandi sæti í deildinni tryggt.
Knattspyrnudeild vill þakka þeim fjölmörgu áhorfendum sem mættu á Varmárvöll fyrir stuðninginn sem svo sannarlega er strákunum okkar og þjálfurum þeirra mikilvægur eftir mótlætið að undanförnu.