Afturelding bætir við sig leikmönnum

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Þær Jóhanna Svava Gunnarsdóttir, Snjólaug Heimisdóttir, Valdís Ósk Sigurðardóttir og Tinna Dofradóttir hafa allar gengið til liðs við félagið. Jóhanna kemur frá ÍBV, Snjólaug frá Hömrunum, Valdís frá Sindra og Tinna frá Breiðablik. Knattspyrnudeild býður þær hjartanlega velkomnar í Mosfellsbæinn.

Þá hafa systurnar Halldóra Þóra og Sigríður Þóra Birgisdætur einnig gengið frá félagaskiptum sínum til Aftureldingar. Halldóra Þóra lék með Hvíta Riddaranum í sumar eftir dvöl í Noregi en hún var m.a. valin leikmaður ársins hjá Aftureldingu árið 2012.

Sigríði Þóru þarf svo ekki að kynna. Sigga er leikja- og markahæsti leikmaður Aftureldingar frá upphafi og hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir framlag sitt til félagsins, m.a. leikmaður ársins og íþróttakona bæði Aftureldingar og Mosfellsbæjar árið 2010. Sigga lék með Íslandsmeisturum Stjörnunnar á síðasta tímabili en hefur nú ákveðið að snúa aftur í sitt uppeldisfélag og taka þátt í að koma liðinu í fremstu röð á ný.

Samtals hafa þessar knattspyrnukonur leikið 338 meistaraflokksleiki og skorað 63 mörk þannig að lið Aftureldingar er hér að fá mikinn liðsstyrk og verður spennandi að fylgjast með liðinu á komandi tímabili.

Á mynd frá vinstri: Snjólaug, Valdís, Tinna, Sigríður og Halldóra. Vantar Jóhönnu.