Afturelding byrjar með sigri

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Það var ekkert verið að bíða með hlutina á gerfigrasvellinum að Varmá en vallargestir voru rétt að koma sér fyrir í strekkingsvind við Varmána þegar Stefanía Valdimarsdóttir fékk flotta stungu innfyrir og kláraði vel með föstu skoti í markhornið og staðan orðin 1-0 eftir tæpar tvær mínútur.

Undir lok fyrri hálfleiks bætti Katla Rún Arnórsdóttir við öðru marki af harðfylgni eftir hornspyrnu og staðan 2-0 í hálfleik. Völsungur minnkaði muninn snemma í seinni hálfleik en Stefanía var aftur á ferðinni stuttu síðar og skoraði þriðja mark Aftureldingar og annað mark sitt með glæsilegu skallamarki.

Og þannig lauk leiknum með 3-1 sigri og stelpurnar okkar byrja því tímabilið vel. Stefanía fór þar fremst í flokki, skoraði tvö frábær mörk og var sí-ógnandi en aðrir leikmenn áttu flestir fínan dag. Fréttritari tók svo sérstaklega eftir þeim Ingu Laufeyju og Hafrúnu Rakel sem eru að stíga sín fyrstu skref með meistaraflokki og stóðu sig afar vel. Næst koma tveir útileikir, sá fyrri á föstudaginn gegn Álftanesi og síðan er áhugaverður leikur á dagskrá gegn sterku liði Fjölnis í Grafarvogi.

Afturelding/Fram: Selma (Cecilía), Inga Laufey, Valdís Ósk, Matthildur, Katla (Anna Pálína), Margrét, Svandís (Valdís Harpa), Hafrún (Ester Lilja), Eva Rut, Sigrún, Stefanía (Esther)