Leikurinn sem var fyrsti heimaleikur meistaraflokks karla þetta sumarið fór nokkuð fjörlega af stað og sérstaklega var það Alexander Aron Davorsson sem var áberandi í sóknarleik Aftureldingar. Alli átti laglega hjólhestaspyrnu snemma leiks og skoraði svo fyrsta mark leiksins með skalla stuttu síðar og staðan 1-0 eftir 12 mínútna leik.
Veðurguðirnir voru í ágætu skapi á Varmá, nokkuð svalt en annars ágætt veður en einn veðurguð var þó ekki á okkar bandi því Ingólfur Þórarinsson jafnaði metin fyrir Ægi um miðjan fyrri hálfleik og þannig stóð í leikhléi.
Snemma í síðari hálfleik var dæmd vítaspyrna á gestina og úr henni skoraði Nik Anthony Chamberlain örugglega. Nik var svo aftur á ferðinni á 65.mínútu þegar hann skallaði boltann laglega yfir markmann Ægis og staðan 3-1.
Ægismenn fengu svo líflínu seint í leiknum þegar Einar Marteinsson skoraði óverjandi í eigið mark og settu pressu á okkar menn en Afturelding hélt það út og fagnaði að lokum 3-2 sigri.
Sigur Aftureldingar var að mati fréttaritara sanngjarn en liðinu tókst þó ekki almennilega að hrista gestina af sér. Fátt var um opin færi en talsvert af föstum leikatriðum sem ekki náðist að nýta. Afturelding situr þó á toppi deildarinnar með fullt hús stiga en lakara markahlutfall en Vestri.
Lið Aftureldingar: Bergsteinn, Atli, Einar, Andri, Þorgeir, Birkir, Kristófer (Gunnar W), Maggi, Wentzel, Nik (Gunnar Andri), Alli (Egill). Maður leiksins: Nik Anthony Chamberlain, Nik skoraði tvo mörk og átti skínandi leik inná miðjunni.
Næsti leikur er á laugardag eftir viku á Húsavík gegn Völsungi sem er um miðja deild með tvö jafntefli í fyrstu tveimur leikjum sínum.