Leikurinn byrjaði með látum og heimamenn komust yfir eftir 8 mínútna leik en það stóð ekki lengi því Sigríður Þóra Birgisdóttir jafnaði metin fyrir Aftureldingu á 13.mínútu eftir frábæra sendingu frá Stefaníu Valdimarsdóttur. Afturelding átti nokkur fín færi eftir það en þannig stóð í hálfleik en leikið var á gerfigrasvellinum á Selfossi í rólyndisveðri.
Síðari hálfleikur reyndist markalaus og niðurstaðan því 1-1 jafntefli. Aftureldingarliðið lék skínandi vel í leiknum, pressaði heimamenn án afláts og átti nokkur ágætis færi, þar á meðal mark sem var dæmt af við litla hrifningu okkar leikmanna. Pepsideildar lið Selfoss átti eitt skot í stöng en að öðru leyti náðu þær ekki að opna vörn Aftureldingar svo heitið gat. Frammistaða Aftureldingar var til mikillar fyrirmyndar og geta Selfyssingar hrósað happi að hafa náð jafntefli.
Afturelding lýkur því keppni í Faxaflóamótinu í fjórða sæti, þremur stigum á eftir Selfossi en á undan bæði FH og ÍA sem leika í Pepsideildinni í sumar. Sannarlega athyglisverður árangur hjá stelpunum okkar og Júlla þjálfara og lofar góðu fyrir næstu verkefni.
Afturelding – knattspyrnudeild fridrikgunn@gmail.com