Afturelding með stórsigur gegn Álftanesi

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Leikurinn hófst í sól og fallegu vetrarveðri á gerfigrasinu að Varmá og fór nokkuð rólega af stað. Gestirnir náðu þó forystunni snemma leiks þegar langt útspark markvarðar þeirra varð að stoðsendingu en hik í vörn heimamanna hjálpaði til og staðan óvænt orðin 0-1.

Eftir um 20 mínútna leik fékk Afturelding aukaspyrnu rétt utan vítateigs hægra megin og Wentzel Steinarr gerði sér lítið fyrir og skoraði beint úr spyrnunni og jafnaði leikinn. Eftir það náðu okkar menn góðum tökum á leiknum en ekki litu fleiri mörk dagsins ljós fyrir hlé og staðan 1-1 í hálfleik.

Í síðari hálfleik var heldur betur annað uppá teningnum og Afturelding réði lögum og lofum það sem eftir lifði leiks. Arnór Breki Ásþórsson fór á kostum og skoraði fjögur mörk á u.þ.b. korteri og Steinar Ægisson bætti við einu undir lokin og úrslitin 6-1 fyrir Aftureldingu sem fékk færin til að skora enn fleiri.

Afturelding tekur því forystu í B-riðli Lengjubikarsins en strákarnir mæta Njarðvík um næstu helgi hér í Mosó í næsta leik og svo Reyni Sandgerði eftir tvær vikur. Þar á eftir koma svo leikir við Gróttu og Vængi Júpiters.