Afturelding og Breiðablik skildu jöfn

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Leikurinn var ágætlega leikinn miðað við árstíma og var nokkuð jafnræði með liðunum. Lítið var um færi í fyrri hálfleik en leikurinn opnaðist meira í þeim síðari og átti Stefanía Valdimarsdóttir m.a. skot í slá eftir góða rispu í gegnum vörn Blika og stuttu síðar setti hún boltann í netið eftir laglegan undirbúning Kristínar Þóru en haukfrán augu aðstoðardómara greindu rangstæðu og markið stóð því ekki.

Fór því að lokum þannig að hvorugu liðinu tókst að skora og niðurstaðan markalaust jafntefli. Þetta eru þó mjög athyglisverð úrslit miðað við misjafnt gengi liðanna síðasta tímabil og greinilegt að Afturelding mun mæta með sterkt lið til leiks í sumar. Nokkra leikmenn vantaði í bæði lið og lék m.a. vængmaðurinn snjalli, Lovísa Mjöll í marki Aftureldingar og stóð sig þar með prýði.

Eva Rut Ásþórsdóttir sem er aðeins 14 ára lék sínar fyrstu mínútur með meistaraflokki og óskar knattspyrnudeild henni til hamingju með það og fleiri ungar og efnilegar stúlkur hjá Aftureldingu fengu tækifæri til að spreyta sig í þessum fyrsta leik ársins.

Um næstu helgi leikur Afturelding svo við Stjörnuna í Faxaflóamótinu í Kórnum.