Leikurinn var eins og úrslitin bera með sér aldrei sérstaklega spennandi en okkar menn fóru hamförum og unnu með yfirburðum.
Wentzel Steinarr Ragnarsson Kamban skoraði þrennu, Gunnar Wigelund gerði tvö og Arnór Breki Ásþórsson og Einar Marteinsson áttu sitt hvort markið auk þess sem eitt mark var sjálfsmark.
Að loknum þremur umferðum er Afturelding á toppi síns riðils með fullt hús stiga og á þrjá af fjórum markahæstu mönnum að auki en þeir Wentzel Steinarr, Arnór Breki og Gunnar Wigelund hafa allir gert fjögur mörk í þremur fyrstu leikjunum.
Afturelding fær Víði í heimsókn á mánudag í næstu umferð.
Stelpurnar okkar eru líka farnar af stað. Þær mættu Val á dögunum og biðu þar lægri hlut þar sem landsliðskonan Elín Metta gerði þrennu fyrir Val og kláraði þann leik en í síðustu viku kom Þróttur í heimsókn og lauk þeim leik með markalausu jafntefli.
Næst mæta þær svo FH eftir rúma viku hér heima en Íslandsmótið fer svo af stað um miðjan maí.