Knattspyrnudeild er gleðiefni að tilkynna að þrjár af okkar efnilegustu leikmönnum hafa gert samning við félagið til næstu tveggja ára.
Þetta eru þær Guðrún Sól Gunnarsdóttir, Guðrún Ýr Eyfjörð og Snædís Guðrún Guðmundsdóttir.
Guðrún Sól er öflugur miðvörður sem hefur einnig leikið sem hægri bakvörður. Hún þreytti sína frumraun með meistaraflokki í fyrrasumar þegar hún kom við sögu í einum bikarleik og einum leik í Pepsideildinni. Guðrún Sól mun án efa fá fleiri tækifæri í sumar enda kraftmikill varnarmaður með metnaðinn í lagi. Til gamans má geta að bróðir Guðrúnar Sólar er Þorgeir Leó leikmaður meistaraflokks karla.
Guðrún Ýr er sókndjarfur vængmaður sem einnig getur leikið sem framherji eða inná miðjunni. Guðrún Ýr hefur skorað mikið í gegnum yngri flokkana og verið í stóru hlutverki í sóknarleik liðsins enda fljót og sterk og með góða tækni. Guðrún Ýr lék einn leik með meistaraflokki sumarið 2011 aðeins fimmtán ára en hún missti af sumrinu 2012 vegna meiðsla. Í fyrra lék hún fimm leiki í Pepsideildinni og einn bikarleik og hún hefur tekið þátt í úrtaksæfingum með U16 og U17 landsliðum Íslands.
Snædís Guðrún er miðvallarleikmaður sem hefur verið í hlutverki leikstjórnanda enda með afar gott auga fyrir samspili og stoðsendingum. Hún á það einnig til að fylgja vel með í sóknarleik liðins og hefur gert ófá mörkin í gegnum tíðina. Dísa lék sinn fyrsta meistaraflokksleik sumarið 2012 og bætti öðrum við í fyrra og hún hefur komið við sögu á úrtaksæfingum með U16, U17 og U19 landsliðum Íslands.
Þessar stúlkur eru allar fæddar árið 1996 og er vænst mikils af þeim á næstu árum. Þar með hafa sjö leikmenn úr þeim árgangi samið við félagið en til gamans má rifja það upp að þessi öflugi árgangur varð einmitt Íslandsmeistari í 5.flokki árið 2008.
Á mynd frá vinstri: Dísa, Guðrún Sól og Guðrún Ýr.