Afturelding sigraði Hött

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Umfjöllun frá Fótbolta.net, Gunnar Birgisson skrifaði:

Það var vindasamt í Mosfellsbænum þegar heimamenn fengu Hött frá Egilsstöðum í heimsókn.

Fyrri hálfleikur var bragðdaufur en Höttur þjarmaði að Aftureldingu sem lék þá gegn vindi. Þrátt fyrir að vera meira með boltann tókst þeim ekki að skapa hættuleg færi. En eftir 25 mínútna leik var komið að Aftureldingu að sækja, Magnús Már Einarsson átti þá sendingu inn á Elvar Inga Vignisson sem hljóp einn varnarmann Hattar af sér en var svo tekinn niður inni í vítateig og vítaspyrna réttilega dæmd. Steinar Ægisson steig á punktinn og skoraði af öryggi.

Eftir þrumuræðu Eysteins Húna komu Hattarmenn baráttuglaðir inn í síðari hálfleik og sóttu stíft að Aftureldingarmönnum en rétt eins og í fyrri hálfleik þá voru það heimamenn sem sáu um að eiga hættulegri færi og ógna meira. Á 69.mínutu berst boltinn á Færeyinginn fljúgandi Wentzel Steinarr Ragnarsson Kamban úti á vinstri kanti og hann kom föstum bolta fyrir milli fóta Elmars Braga Einarssonar og þar var Elvar Ingi réttur maður á réttum stað og setti boltann í autt markið.

Það var svo Elvar Ingi sem kórónaði frábæran leik með því að eiga góðan sprett upp hægri kantinn og renna boltanum fyrir á Kjartan Guðjónsson nýjan leikmann Aftureldingar sem átti ekki í erfiðleikum með það að renna boltanum inn og setja sitt fyrsta mark fyrir félagið.

Á 89.mínútu fékk Högni Helgason boltann inn í teig og virðist vera togaður niður af Einari Marteinssyni og önnur vítaspyrna leiksins dæmd. Það fór illa í heimamenn sem uppskáru nokkur gul spjöld á lokakaflanum fyrir mismiklar sakir. Jonathan Taylor fór á punktinn og klóraði í bakkann fyrir Hött en lokatölur 3-1 fyrir Aftureldingu sem er með sex stig eftir tvo leiki á meðan Höttur er án stiga.

Frétt frá Fótbolta.net. Sjá alla fréttina: http://www.fotbolti.net/news/18-05-2013/umfjollun-afturelding-sigradi-hott-i-rokleik#ixzz2TgzpO9pQ