Þessi lið áttu í harðri baráttu á toppi 2.deildar síðasta sumar og fóru leikar þannig að Grótta náði öðru sæti deildarinnar og leikur því í 1.deild í sumar en Afturelding varð að sætta sig við þriðja sæti og 2.deildar bolta í sumar. Báðir leikir liðanna í deildinni í fyrra enduðu með jafntefli og því kom það kannski ekki á óvart að býsna jafnt var með liðunum einnig í þetta skiptið.
Segja má eins og oft er með leiki á þessum árstíma að baráttan hafi borið fegurðina ofurliði en þó brá fyrir laglegum sprettum hjá báðum liðum. Eftir markalausan fyrri hálfleik þurfti frekar ódýra vítaspyrnu til að opna leikinn og tókst jafnvel það ekki fyrr en í annarri tilraun en Eiður Ívarsson varði þá vítaspyrnu Ingólfs Sigurðssonar en Ingólfur hirti frákastið og skoraði það sem reyndist sigurmark Gróttu í leiknum.
Ekki var augljóst á frammistöðu liðanna hvort væri að undirbúa sig fyrir 1.deildina og hvert 2.deildina. Gróttuliðið er eflaust ágætlega skipað en var ekkert að sýna sparihliðarnar á köldum og að því fréttaritara sýndist glerhörðum gerfigrasvellinum að Varmá. Afturelding tefldi fram frekar ungu liði og var ekki síðri aðilinn í annars nokkuð jöfnum leik og verður gaman að sjá ungu strákana okkar fá tækifæri í sumar í bland við reynslumeiri jaxla.
Lið Aftureldingar: Eiður Ívars, Halldór Jón (Stefnir 61), Sævar Hermanns, Einar Marteins, Valgeir Svans, Arnór Breki, Baldur Búi, Wentzel Steinarr, Maggi Már, Aron Ingi, Andri Freyr.
Næsti leikur strákanna er svo upphafsleikurinn í 2.deild þetta árið sem er á Húsavík gegn Völsungi 6.maí nk.