Afturelding vann Njarðvík um helgina

KnattspyrnudeildKnattspyrna

Afturelding og Njarðvík áttust við í Reykjaneshöll um helgina. Leikurinn átti að fara fram að Varmá en vegnar slæmrar veðurspár ákváðu þjálfarar að færa leikinn yfir til Njarðvíkinga þar sem þeir hafa innanhúss aðstöðu. Þónokkrir sterkir leikmenn voru fjarverandi þessa helgi vegna meiðsla.

Leikurinn var ekki nema 90 sekúndna gamall þegar fyrsta færi leiksins leit dagsins ljós hjá okkar mönnum. Atli Albertsson fékk þá dauðafæri en skot hans yfir markið. Atli fékk svo annað ágætis færi áður en Arnór Breki slapp einn inn fyrir en markvörður Njarðvíkinga sá við honum.

Fyrsta mark leiksins kom eftir rúmlega hálftíma leik og þar var að verki fyrirliðinn Wentzel Steinarr með góðu skoti á nærstöng.

Einungis 4 mínútum síðar réðst Arnór Breki að vörn Njarðvíkinga, lagði svo boltann á Wentzel Steinarr sem skoraði með viðstöðulausu skoti á fjærstöng. Afturelding fékk færi til að auka forystuna fyrir leikhlé en tókst ekki.

Seinni hálfleikur var rólegri en sá fyrri en Arnór Breki átti þó skot í slá og okkar menn ógnuðu marki Njarðvíkinga nokkrum sinnum. Sigurinn var aldrei í hættu og okkar menn fóru með 2-0 sigur af hólmi.

Fínasta frammistaða hjá okkar mönnum. Liðið hélt boltanum vel innan liðsins, skapaði mikið af færum og varnarleikur liðsins góður. Gott dæmi um það er að Bjarni Þòrður markvörður þurfti ekki að verja eitt einasta skot. Marktilraunir voru 17 – 3 en engin af þremur tilraunum Njarðvíkinga hitti á mark okkar manna.

Sterkur sigur á Njarðvík sem leikur einnig í 2. deild í sumar og ljóst að mikil samkeppni er í liði Aftureldingar.

Undirbúningstímabilið fer vel af stað en leikurinn gegn Njarðvík var áttundi leikur liðsins. 5 leikir hafa sigrast, 2 jafntefli og 1 ósigur. Markatalan er 20-9.

HK 2 – 1 Afturelding
Selfoss 0 – 0 Afturelding
Afturelding 1 – 0 Grindavík
Afturelding 1 – 1 Grótta
Afturelding 5 – 3 Höttur
Leiknir R 2 – 4 Afturelding
Afturelding 6 – 1 Álftanes
Njarðvík 0 – 2 Afturelding

Næsti leikur liðsins er á laugardaginn gegn Reyni Sandgerði suður með sjó í Reykjaneshöll.