Í vikunni skrifuðu tveir nýir leikmenn undir samning hjá Aftureldingu. Um er að ræða þá Ásgeir Örn Arnþórsson og Sigfús Kjalar Árnason. Ásgeir Örn er uppalinn í Árbænum og er þaulreyndur leikmaður sem mun líklega styrkja liðið mikið því hann á að baki níu tímabil með Fylki í Pepsi-deildinni. Ásgeir hefur lengst af á ferlinum spilað í bakverði en hann er mjög fjölhæfur leikmaður og getur spilað flestar stöður á vellinum. Hinn 28 ára gamli Ásgeir þekkir vel til í Mosfellsbæ því hann var á láni hjá Aftureldingu hluta sumars 2011 og hluta sumars 2012.
Sigfús er fljótur og sterkur vinstri bakvörður sem kemur til Aftureldingar frá Víkingi Reykjavík. Sigfús er 19 ára gamall en hann var að ganga upp úr öðrum flokki Víkings í haust. Sigfús fékk að spreyta sig á æfingum með meistaraflokknum í haust og stóð sig það vel að ákveðið var að gera tveggja ára samning við Sigfús. Afturelding fagnar komu þessara leikmanna og hlakkar til að sjá þá í baráttunni með strákunum í Inkasso-deildinni næsta sumar.