Atli hefur mikla reynslu sem þjálfari og leikmaður og hefur numið þjálfarafræðin bæði hér á landi og í Þýskalandi og meðal annars lokið UEFA Pro Licence þjálfaragráðu frá Sportshochschule Köln.
Meðal félaga sem hann hefur þjálfað eru HK, ÍBV, Fylkir, KR, Þróttur, Valur og nú síðast Reynir Sandgerði. Hann gerði KR að íslands- og bikarmeisturum árið 1999. Þá hefur hann þjálfað bæði karlalandslið Íslands og 21 árs landslið Íslands.
Atli spilaði sem atvinnumaður erlendis um 10 ára skeið eða frá 1980 til 1990. Þar spilaði hann 239 leiki og gerði 59 mörk í þýsku Bundesligunni fyrir Borussia Dortmund, Fortuna Dusseldorf og Bayer 05 Uerdingen og 30 leiki fyrir Genschlerbirligi í Tyrklandi. Áður en hann gerðist atvinnumaður spilaði með uppeldisfélai sínu Val og eftir að hann kom heim úr atvinnumennskunni spilaði hann með KR áður en hann lagði skóna á hilluna árið 1993.
Þá spilaði Atli 70 A landsleiki fyrir Ísland, þar af 31 sem fyrirliði, og gerði í þeim 8 mörk.
Afturelding býður Atla velkominn til starfa í Mosfellsbæinn og bindur miklar vonir við starf hans á komandi árum. Afturelding var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í næst efstu deild á síðasta tímabili og er markmiðið að gera betur á næsta tímabili.
Atla til aðstoðar verður Úlfur Arnar Jökulsson en hann er mörgum Mosfellingum af góðu kunnur.
Úlfur er menntaður íþróttafræðingur frá Háskóla Reykjavíkur með sérhæfingu í afreks, styrktar og þrekþjálfun og hefur einnig lokið UEFA B gráðu auk fjölda annarra námskeiða sem lúta að knattspyrnu- , einka- og styrktarþjálfun. Úlfur stefnir á að klára UEFA A gráðu á komandi vetri.
Úlfur kom til Aftureldingar frá Fjölni fyrir tveimur árum og hefur séð um þjálfun 2. Flokks og 3. Flokks karla Aftureldingar við góðan orðstír og náð fádæma góðum árangri.
Með það að leiðarljósi að auka tengingu milli meistaraflokks karla og næstu flokka fyrir neðan, lýsir stjórn Aftureldingar yfir mikilli ánægju með skref Úlfs. Þessi ráðning undirstrikar stefnu félagsins um að ungir og kraftmiklir knattspyrnumenn í vaxandi bæjarfélagi fái sem bestan stuðning til þess að ná markmiðum sínum í heimahögum.